Jafnréttismál

Þorsteinn Sæmundsson beindi fyrirspurn til forsætisráðherra á Alþingi í dag.

„Mig langar að beina fyrirspurn til hæstvirts forsætisráðherra sem er ekki bara forsætisráðherra heldur líka jafnréttisráðherra.
 
Það vakti töluverða athygli bæði mína og annarra að hæstvirtur mennta- og menningarmálaráðherra skyldi halda upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna með því að vísa máli, sem hafði verið henni tvisvar mótdrægt, bæði í úrskurðarnefnd um jafnréttismál og í héraðsdómi, til Landsréttar.
 
Mig langar að spyrja nokkurra spurninga út af þessu.
 
Nú er það náttúrlega trauðla að hæstvirtur mennta- og menningarmálaráðherra sé eini ráðherrann á Íslandi sem hefur brotið jafnréttislög, þ.e. ef úrskurðir héraðsdóms og úrskurðarnefndar standa í þessu máli. Ég minnist þess að tveir innanríkisráðherrar hafa gert það líka, einn forsætisráðherra og einn fjármálaráðherra. Öll voru þau jafn hissa á úrskurðinum sem þau fengu.
 

Mig langar að spyrja hæstvirtan forsætisráðherra og jafnréttisráðherra: Telur hún að þessi málarekstur, sem er fordæmalaus eftir því sem ég best veit, verði til þess að hvetja þá sem órétti eru beittir til þess að leita réttar síns gagnvart ríkinu?

Mig langar líka til að spyrja hvort hæstvirtan ráðherra hafi skoðun á þessum málarekstri sem beinist gegn konu sem hefur ekkert til saka unnið annað en að sækja um starf og vera metin hæf til að gegna því. En í stað þess að henni séu boðnar bætur, eins og oft hefur verið gert í svona málum, er hún hundelt fyrir dómstólum og verður væntanlega nú um nokkurt skeið.

Hæstvirtur ráðherra minntist áðan á ábyrgð ráðherra í þessum málum og nú er það næsta víst að Landsréttur mun ekki kveða upp úrskurð sinn í þessu máli fyrr en núverandi hæstvirtur mennta- og menningarmálaráðherra hefur lokið störfum, að sinni alla vega.

Því verð ég að spyrja hæstvirtan ráðherra: Mun hún beita sér fyrir því með einhverjum hætti að Landsréttur setji þetta mál í flýtimeðferð, þannig að niðurstaða liggi fyrir fyrir kosningar í haust og téður ráðherra geti þá borið ábyrgð á þessum gjörðum sínum?"

 

Upptöku af fyrirspurn Þorsteins í þingsal og svar ráðherra má sjá hér