Jöfnun raforkukostnaðar verður að vera raunveruleg

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í störfum þingsins og ræddi um jöfnun raforkukostnaðar á landsbyggðinni.

"Ef vilji stjórnvalda er að byggja upp á landsbyggðinni verður jöfnun raforkukostnaðar að vera raunveruleg. Þær tilraunir sem gerðar hafa verið um jöfnun raforkukostnaðar til þessa hafa oft og tíðum mistekist. Það vantar ekki viljann en samsetning raforkumála er frekar flókið fyrirbæri. Nú er til umræðu í atvinnuveganefnd mál sem er um raforkulög og stofnun Landsnets og flestir fagna þessu máli og ég geri það líka. En ég spyr mig að því og hef spurt að því: Af hverju kemur þetta mál svona seint fyrir? Það er ekki nema, getum við sagt, korter í þinglok og fimm mínútur í lok kjörtímabils og þá kemur þetta stóra mál á dagskrá þingsins sem þarf vandaða vinnu og sennilega lengri tíma til að fá farsæla niðurstöðu í raunveruleikanum. Þar er spurt: Hver eru áhrifin fyrir notendur? Það verður örugglega erfitt að svara þeirri spurningu í þessu frumvarpi áður en þingi lýkur. Hvað varðar uppbyggingu á landsbyggðinni þá er mikill áhugi hjá ungu fólki og fólki yfirleitt að flytja út á land og þá þurfa innviðir á landsbyggðinni og alls staðar í kringum landið að vera í samræmi við þéttbýlið. Þar spilar raforkukostnaður stórt hlutverk. Ég kalla eftir því að við vöndum þessa vinnu sem er þó tími til að vinna við. En tíminn er allt of knappur og finnst mér það áhyggjuefni hvað ríkisstjórnin lætur mál eins og þetta, svona stórmál, koma allt of seint fram á þessum þingvetri."

Ræðu Sigurðar Páls má sjá hér.