600-800 börn á biðlista eftir aðstoð talmeinafræðings

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, tók þátt í störfum þingsins á Alþingi í vikunni.  Hann vakti athygli á málefnum þeirra barna og ungmenna sem eiga í talerfiðleikum og ræddi um þá löngu biðlista sem skapast hafa hjá talmeinafræðingum, en í dag er biðin allt að 2 ár til að komast að, sem hann telur óásættanlegt.

Ræðu Karls Gauta má lesa hér:  "Herra forseti. Í dag ætla ég enn og aftur að vekja athygli á biðlistum í heilbrigðiskerfinu okkar. Ég ætla að vekja athygli á málefnum þeirra barna og ungmenna sem eiga í talerfiðleikum. Talvandamál geta orsakast af ýmsu og verið ýmiss konar, m.a. erfiðleikar við málskilning og máltjáningu, raddvandamál, vandamál við að bera hljóð rétt fram, stam, kyngingarörðugleikar og margs konar önnur vandamál tengd tali. Augljóst er að því fyrr sem tekið er á þeim vandamálum þeim mun fyrr geta börnin átti í hnökralausum samskiptum við hina fullorðnu, kennara og jafnaldra. Talvandamál barna draga stórlega úr líkum á eðlilegum félagslegum samskiptum og geta þannig dregið úr þroskamöguleikum barna. Í dag er talið að um 600–800 börn séu á biðlistum eftir aðstoð talmeinafræðings en einungis 7–8 slíkir eru útskrifaðir á ári frá Háskóla Íslands.

Í frétt mbl.is í morgun segir Signý Einarsdóttir talmeinafræðingur að ástæðan fyrir þessum löngum biðlistum sé ákvæði sem Sjúkratryggingar Íslands settu inn í rammasamning við talmeinafræðinga fyrir nokkrum árum. Ríkið greiðir einungis talþjálfun fyrir börn með alvarlegan talvanda. Í ákvæðinu felst að talmeinafræðingar þurfa eftir meistaranám í háskóla að starfa í tvö ár á stofnun eða hjá sveitarfélagi áður en þeir komast á samning hjá Sjúkratryggingum og geta farið að starfa sjálfstætt. Þetta ákvæði um tveggja ára starfstíma er sérstaklega vont þar sem ekki eru mörg störf í boði hjá stofnunum og sveitarfélögum fyrir talmeinafræðinga. Nýútskrifaðir talmeinafræðingar þurfa að starfa undir handleiðslu reynds talmeinafræðings í sex mánuði áður en þeir fá leyfi landlæknis til starfa. Það virðist vera orðin árátta heilbrigðisyfirvalda að leggja stein í götu einkareksturs sé hann einhvers staðar fyrir hendi. Biðlistar eru dýrir fyrir samfélagið en miklu dýrari fyrir þá sem á þeim biðlistum sitja. Skjólstæðingar talmeinafræðinga, langoftast ung börn, hafa ekki tíma til að sitja á biðlistum í tvö ár eftir því að fá aðstoð við talþjálfun, herra forseti. Þessu þarf að kippa í liðinn."

Upptöku af ræðu Karls Gauta úr þingsal má sjá hér