Matvælaöryggi

Ágústa Ágústsdóttir, flutti jómfrúaræðu sína á Alþingi, hún tók þátt í óundirbúnum fyrirspurnartíma og spurði matvælaráðherra um matvælaöryggi.

Frú forseti. Eftir þyrnirósarblund íslenskra stjórnvalda síðustu áratugina gagnvart íslenskum landbúnaði og einbeittan vilja til niðurbrotsstarfsemi þeirrar greinar með síauknum innflutningi á verksmiðjuframleiddum matvælum er lúta langtum lægri kröfum en þau íslensku þegar kemur að eftirliti með gæðum og uppruna sem og lækkun eða afnámi innflutningstolla, svo ég tali nú ekki um það tollasvindl sem hefur viðgengist í allt of langan tíma, ætti í dag að vera kýrskýrt fyrir öllum hversu mikilvægt það er fyrir eyju í Norður-Atlantshafi að vera eins sjálfstæð og mögulegt er þegar kemur að innlendri grunnmatvælaframleiðslu, hvort sem um ræðir kornrækt, kjötrækt, ávaxta- eða grænmetisrækt, því matur er jú undirstaða þess að hér á landi þrífist líf. Ef núverandi ríkisstjórn ákveður nú að vakna af þessum væra blundi þá spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún hafi áætlanir um aðgerðir til að vernda og efla íslenska grunnmatvælaframleiðslu og ef svo er, hvernig ætlar hún að koma því í framkvæmd? Hefur hæstv. ráðherra hug á að nota vald sitt til að herða innflutningslög og -tolla til að skapa meira jafnvægi og eðlilegra samkeppnissvið milli innlendra og erlendra matvælaframleiðenda?

Fyrirspurnina má sjá hér.