Móttaka flóttafólks frá Úkraínu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði fjármála- og efnahagsráðherra um móttöku flóttafólks í Úkraínu. 

Herra forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra vakti athygli á því fyrir nokkrum dögum að hælisleitendakerfið á Íslandi væri í ólagi og sá vandi gerði okkur erfitt fyrir núna þegar við stöndum frammi fyrir því að taka á móti töluverðum fjölda flóttamanna frá Úkraínu. Þetta var alveg rétt að mínu mati hjá hæstv. ráðherra og mikilvægt að hefja loks umræðu um þetta, sem hafa nú verið gerðar nokkrar tilraunir til að fá ríkisstjórnina til að ræða án árangurs. Mér þótti þó heldur halla undan fæti í viðtali við hæstv. ráðherra á Bylgjunni í morgun þar sem hann virtist fyrst og fremst vera að bíða eftir leiðsögn frá stjórnkerfinu um hver væru næstu skref. Hæstv. ráðherra nefndi þó að í síðustu viku hefði Útlendingastofnun tekið á leigu um 200 hótelherbergi fyrir hælisleitendur og þau væru nú öll full og útlit fyrir að tekin yrðu á leigu 200 í viðbót sem myndu fyllast fljótt. Við heyrðum í fréttum að í febrúarmánuði hefði verið mesti fjöldi hælisumsókna sem hefur verið hér í allmörg ár, sem er auðvitað afleiðing af þeirri stefnu sem hefur verið rekin hér. Og þetta er áður en við bregðumst við stöðunni í Úkraínu. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Er von til þess að ríkisstjórnin muni loksins taka sér tak í þessum málum og að línur verði lagðar varðandi fjárstuðning við hælisleitendur og má þá vænta þess að Ísland muni styðja við löndin næst Úkraínu eins og Pólland, sem hefur nú þegar tekið við milljón flóttamönnum, styðja við þau lönd sérstaklega þannig að þau verði betur í stakk búin til að taka við flóttafólki samhliða því sem við tökum á móti fólki hér?

Sjá fyrirspurnina í heild sinni