Ómerkileg vinsældarstjórnmál

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í störfum þingsins á Alþingi í dag og ræddi um pólitíkina:

"Herra forseti. Ég ætla að ræða pólitíkina aðeins, nú þegar prófkjör standa yfir og óðum styttist í kosningar. Það er hálfspaugilegt að fylgjast með sumum frambjóðendum, sérstaklega í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Þannig get ég ekki betur séð en að margir þeirra hafi tekið upp málflutning okkar Miðflokksmanna í fjölmörgum málum. Nú eru þessir ágætu frambjóðendur, margt prýðisfólk, næstum allir á móti hálendisþjóðgarði en vita samt ofurvel að þeir eru bundnir samþykkt hans í stjórnarsáttmála. Og ef málið klárast ekki í vor, með málamyndalagfæringum, munu þessir flokkar samþykkja það eftir kosningar í haust til að framlengja líf þessarar ríkisstjórnar. Vita þeir þó ofurvel að eini flokkurinn sem stendur í lappirnar á móti miðstýringu á hálendi Íslands er Miðflokkurinn. Þeir treysta jafnvel á að hann komi þeim til bjargar í málinu.

Margir þessara prýðisgóðu frambjóðenda finna nú heilbrigðiskerfinu flest til foráttu, sem á síðustu örfáum misserum er að verða að miðstýrðum óskapnaði, þótt þeir viti mætavel að því er stýrt í þeirra skjóli. Í skjóli þessara flokka er þar hlaðið upp öllu stórgrýti sem fyrirfinnst í veg fyrir allt sem talist getur til einkaframtaks. Óhætt er að segja að snögg veðrabrigði hafi orðið á sviði heilbrigðismála þar sem einkaframtakinu hefur verið úthýst kerfisbundið. Hentugra þykir að senda sjúklinga í margfalt dýrari aðgerðir hjá einkaaðilum erlendis en að nýta innlendar, einkareknar stofur. Þeir sem helst finna fyrir þessu sitja á biðlistum.

Loks ætla ég að nefna vegferð hæstvirts heilbrigðisráðherra með framlagningu frumvarps sem kveður á um lögleiðingu neysluskammta fíkniefna. Þar er um hreinræktað Píratamál að ræða sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar stendur að og er lagt fram gjörsamlega vanhugsað og berstrípað og í fullkominni andstöðu við eindregnar viðvaranir lækna og lögreglu. Það mál er ömurlegt dæmi um ómerkileg vinsældastjórnmál, en Miðflokkurinn mun standa í lappirnar í því máli eins og öðrum."

Ræðu Karls Gauta í þingsal má sjá hér