Raunhæfar lausnir Miðflokksins í loftslagsmálum

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, ræddi um aðgerðir í loftslagsmálum í störfum þingsins.  Stjórnvöld hafa lagt stóraukið fé í málaflokk loftslagsmála, en hvert hefur það fé farið?  Hann ræddi einnig raunhæfar lausnir Miðflokksins í loftslagsmálum; aukin skógrækt til kolefnisbindingar og að brenna sorp okkar innan lands í stað þess að sigla með það til útlanda til brennsu.

"Nú ber það hæst að fyrsta gos í nær 800 ár er hafið á Reykjanesskaga. Landsmenn fylgjast áhugasamir með og leggja jafnvel á sig langa göngu til að berja sjálft eldgosið augum. En gosið í Geldingadölum er ekki saklaus viðburður. Þar geta leynst hættur og því nauðsynlegt að veita áhugasömum sem bestar upplýsingar og leiðbeiningar og hafa almannavarnir og hjálparsveitir staðið sig afar vel í þeim efnum.

Mér virðist, herra forseti, að stór hluti landsmanna sé orðinn sérfræðingar í jarðfræði síðustu daga. Við erum öll að verða jarðfræðingar. En það er ekki aðeins hraun sem kemur upp um strompinn sem helst lætur að sér kveða, þarna gýs einnig upp mikið magn af hættulegum gastegundum og enn meira vegna þess hve kvikan kemur djúpt úr iðrum jarðar. Þar könnumst við við lofttegundir eins og koldíoxíð og fleiri skaðlegar lofttegundir sem við höfum kallað gróðurhúsalofttegundir. Gígurinn í Geldingadölum framleiðir þannig meira af þessum gastegundum en iðnaðarþjóðir eins og Bretland eða Þýskaland. Það eru sláandi staðreyndir, sérstaklega þegar haft er í huga að nú ræða jarðvísindamenn sín á milli um að gosið geti mögulega staðið árum saman.

Það leiðir hugann að aðgerðum okkar í loftslagsmálum en í þann málaflokk hafa stjórnvöld lagt stóraukið fé. Hvert hefur það fé farið? Um það ríkir algjör þögn. Það sem við sjáum er að starfsfólki í ráðuneytum og stofnunum sem undir þetta svið heyra hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Nú er ráðgert að leggja milljarð til viðbótar til loftslagsmála. Það kemur fram í fjármálaáætlun sem nú er komin fram. Í hvað skyldi það fé eiga að fara? Hvar er mat á árangri af þessum aðgerðum? Eða er þetta enn og aftur til að belgja út báknið á vakt vinstri manna?

Við Miðflokksmenn höfum talað um raunhæfar lausnir í þessum efnum. Við höfum talað fyrir aukinni skógrækt til kolefnisbindingar og að brenna sorp okkar innan lands í stað þess að sigla með það til útlanda til brennslu með tilheyrandi sóðaskap."

Ræðu Karls Gauta í þingsal má sjá hér