Sigmundur Davíð vildi heyra hæstvirtan ráðherra segja: „Við munum ekki taka þetta upp!“

Utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir gerði grein fyrir framkvæmd EES samningsins á Alþingi í vikunni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins tók til máls og sagði það mikið áhyggjuefni að Ísland virtist vera látið uppfylla ríkari kröfur en önnur lönd á sambandssvæði EES. Það ætti m.a. við í umhverfis- orku- og landbúnaðarmálum. Samningurinn væri farinn að stækka í þá veru að hann næði til sviða þar sem hagsmunir Íslands væru gjörólíkir hagsmunum Evrópusambandslandanna og regluverkið ætti þá mun síður við hér!

Sérstaða Íslands á að gera það að verkum að ríkisstjórnin spyrni við fótum í orku- og umhverfismálum, sagði Sigmundur Davíð. Varðandi flugið þá væri það fráleitt að á sama tíma og stjórnvöld þykjast vilja stuðla að fjölgun ferðamanna þá skuli um leið settir á nýjir og nýjir skattar og refsgjöld á þá sem vilja ferðast! Nú væri það tilraun Evrópusambandsins til að leggja af flugsamgöngur við Ísland í núverandi mynd með tilskipun um auknar álögur! Sigmundur Davíð sagðist vilja heyra hæstvirtan ráðherra segja: „Við munum ekki taka þetta upp!“

Í andsvörum ráðherra kom fram að hún teldi að ekki væri möguleiki á að innleiða tilskipunina algjörlega óbreytta.

Sigmundur Davíð var ekki allskostar ánægður með svar ráðherra um að hún teldi ekki rétta að innleiða reglugerðina algjörlega óbreytta þó hann fagnaði þeim undirtektum um hve Evrópska kerfið væri ruglingslegt og ætti ekki við hér á landi. Sigmundur Davíð tvíspurði því ráðherrann: „Er ekki bara rétt að segja: Við viljum undanþágu. Tökum þetta ekki upp!“

Ráðherrann gaf þá afdráttarlaust svar og sagði það afstöðu íslenskra stjórnvalda að krafan yrði ekki tekin upp í EES-samninginn án þess að tekið væri tillit til íslenskra aðstæðna. Einnig að unnið væri að nákvæmri útfærslu á því hvernig gagnsvar Íslands yrði. Þórdís Kolbrún sagðist ekki vera tilbúin að innleiða regluverk sem væri ósanngjarnt fyrir okkur þegar afleiðingarnar væru eins miklar og þær yrðu og hefðu stórkostlegan skaða í för með sér fyrir Keflavíkurflugvöll, ferðaþjónustu og annan útflutning. 

Sigmundur Davíð sagðist vera ánægður að heyra hvað hæstvirtur ráðherra talaði afdráttarlaust um þetta mikilvæga mál. Sagði hann vandann auðvitað að miklu leyti liggja í því sem væri búið að margítreka bæði í umræðum í þinginu og í hinum ýmsu skýrslum stjórnvalda, - að lýsa því yfir að við ætluðum að fylgja Evrópusambandinu í þeirra umhverfisstefnu. Hér hafi þegar verið innleidd slík lög með vísan til þess að með því séum við góðir og þægir þátttakendur með Evrópusambandinu eins og það er að nálgast hlutina! Sigmundur Davíð sagði að miðað við þetta þá myndi Evrópusambandið álykta sem svo að Íslendingar væru nú þegar samþykkir því sem frá sambandinu kæmi og þá þýddi lítið annað en að samþykkja!

 

Ræðu Sigmundar má sjá hér