Skipulögð glæpastarfsemi

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, beindi fyrirspurn sinni um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi til dómsmálaráðherra í óundibúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Fyrirpurn Karls Gauta má lesa hér í heild sinni:

Herra forseti. Ísland hefur verið tiltölulega friðsælt og öruggt land. Óhætt er að segja að þannig viljum við halda því. Í ljósi nýlegra frétta af voðaatburði hér í borg koma auðvitað upp ýmsar spurningar, hvort á þessu séu að verða breytingar. Á árinu 2017 kom út skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi og var þá talið að áhætta vegna slíkrar starfsemi væri, eins og sagt var, mikil, og kom þar fram að ýmsar vísbendingar væru um að umsvif erlendra glæpahópa væru að aukast hér á landi. Af því tilefni efndi ég til sérstakrar umræðu hér á Alþingi 5. mars 2018, fyrir rétt um þremur árum, um skýrsluna sem kom út í október 2017, við þáverandi dómsmálaráðherra sem vakti reyndar ótrúlega litla athygli. Í skýrslunni komu fram fjölmörg varnaðarorð til stjórnvalda og m.a. bent á að lögreglumenn væru of fáliðaðir.
Fyrir tæpum tveimur árum, í maí 2019, kom út áhættumatsskýrsla á vegum greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem bar nafnið Skipuleg brotastarfsemi á Íslandi. Meginniðurstaða þeirrar skýrslu var sú að áhætta vegna helstu brotaflokka skipulagðrar glæpastarfsemi fari enn vaxandi. Samkvæmt áhættulíkani varð niðurstaðan „gífurleg áhætta“ við mat á skipulagðri glæpastarfsemi en það er hæsta stig áhættu og það eru tvö ár síðan. Í þeirri skýrslu kemur fram að aukning hafi orðið í innflutningi á kókaíni og hana megi taka sem dæmi um umsvif skipulagðra brotahópa með erlendar tengingar. Þar kemur einnig fram að hlutur erlendra glæpahópa í innflutningi og framleiðslu á amfetamíni hér á landi sé stór og jafnvel ráðandi. Fleiri brotaflokkar eru nefndir í þessari skýrslu með erlendar tengingar. Í skýrslunni er bent á að lögreglan verði að búa yfir þeim styrk sem nauðsynlegur er til að hún fái sinnt öryggishlutverki sínu. Ein af niðurstöðum skýrslunnar var að geta íslensku lögreglunnar til að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi teljist lítil. Veikleikarnir eru til þess fallnir að auka líkur á skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi og magna neikvæðar afleiðingar.
Ég spyr hæstvirtan dómsmálaráðherra: Hver hafa viðbrögðin verið við þessum endurteknu viðvörunum lögreglunnar síðan 2017?

Upptöku af fyrirspurn Karls Gauta úr þingsal og svar ráðherra má sjá hér