Sóttvarnaraðgerðir

Bergþór Ólason tók þátt í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi og spurði þar heilbrigðisráðherra um sóttvarnaraðgerðir.

Virðulegur ráðherra. Í liðinni viku lýstu forsætis- og heilbrigðisráðherrar Spánar því yfir að nú væri kominn sá tími að rétt væri að nálgast heimsfaraldur Covid-19 sem hverja aðra inflúensu. Ný nálgun væri nauðsynleg þar sem eiginlegum heimsfaraldri væri lokið í ljósi þess að hið svokallaða ómíkron-afbrigði veirunnar væri mun mildara en þau fyrri. Þann 9. janúar síðastliðinn, fyrir rúmri viku, skrifaði Ragnar Freyr Ingvarsson læknir, fyrrverandi yfirmaður Covid-göngudeildar, pistil á Facebook þar sem hann lýsti efasemdum um að við værum enn á réttri braut hvað viðbrögð við faraldrinum varðar. Með leyfi forseta fleygir Ragnar fram spurningum eins og: Er vit í því að framkvæma öll þessi pcr-próf á að mestu leyti frísku fólki sem hefur litla áhættu á því að veikjast alvarlega, leggjast inn á sjúkrahús eða lenda á gjörgæslu? Pcr-prófin eru ekki ókeypis. Ætli kostnaðurinn sé ekki á bilinu 50–100 milljónir í dag. Væri t.d. meira vit í að beina því fjármagni inn á spítalann? Prófa bara þá sem eru í áhættuhópum? Vakta þá sem eru í áhættu sérstaklega? Þurfum við að endurhugsa nálgun okkar? Horfa lengra fram á veginn?. Þannig spyr Ragnar Freyr.
Þarna kemur það fram sem er svo mikilvægt núna, þ.e. að þora að horfa til nýrra leiða og nýrrar nálgunar. Mig langar því, í ljósi þess sem ég hef nefnt hér, að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hver afstaða hans sé til þeirra frétta sem nú berast frá Spáni og kollega hans þar í ljósi þess að þar eru þrátt fyrir allt enn töluvert fleiri hlutfallslega sem látast með þessa veiru í sér en á Íslandi.
Mig langar sömuleiðis að spyrja hæstv. ráðherra út í þau sjónarmið sem fyrrverandi yfirmaður göngudeildar Covid á Íslandi setur fram í þessum pistlum sínum, nefndur Ragnar Freyr Ingvarsson.

Fyrirspurnin í heild sinni