Staða einhverfra barna í grunnskólum landsins

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í störfum þingsins í dag. 

Ólafur sagði það áhyggjuefni að einungis brot af þeim börnum með einhverfu sem þurfa á námi í sérdeildum að halda, komist þar að og að þar sé brotið alvarlega gegn rétti einhverfra barna til að njóta kennslu við sitt hæfi.

Ólafur Ísleifsson:

"Staða einhverfra barna í grunnskólum er alvarlegt áhyggjuefni. Í lögum um grunnskóla segir um rétt nemenda, með leyfi forseta:

„Allir nemendur grunnskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan.“

Ég hef undir höndum bréf Reykjavíkurborgar vegna barns sem fætt er árið 2015 og á því að byrja grunnskólagöngu sína í haust. Fyrir liggur niðurstaða Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins um að barninu sé best borgið í sérdeild fyrir einhverfa og þar var sótt um fyrir barnið. Svar barst frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar 21. apríl með eftirfarandi yfirskrift: „Fyrirhuguð synjun umsóknar um skólavist í sérhæfðri sérdeild fyrir einhverfa nemendur.“ Í bréfinu kemur fram að sótt hafi verið um fyrir 38 nemendur í sérdeildum en aðeins átta pláss séu til ráðstöfunar. Þetta þýðir að af 38 nemendum með einhverfu komast átta að. Það eru um 21% umsækjenda: Þetta þýðir að hin 80%, 30 börn, njóta ekki lögbundins réttar um kennslu við sitt hæfi.

Herra forseti. Fyrirhuguð synjun um skólavist í sérhæfðri deild fyrir einhverfa nemendur fer í bága við afdráttarlaus ákvæði grunnskólalaga. Efni þeirra er að tryggja öllum nemendum grunnskóla rétt á kennslu við sitt hæfi. Sú kennsla er á ábyrgð og kostnað Reykjavíkurborgar í þessu tilfelli. Menntamálaráðuneytið hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem grunnskólalögin kveða á um. Ráðherra skal á þriggja ára fresti leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum landsins.

Tilvitnað bréf skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sýnir að brotið er alvarlega gegn rétti einhverfra barna til að njóta kennslu við sitt hæfi."

Ræðu Ólafs í þingsal má sjá hér