Staðan í Úkraínu

Sigmundur Davíð tók til máls í umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um stöðuna í Úkraínu.

Frú forseti. Hörmungarnar í Úkraínu kalla líka á viðbrögð á Íslandi. Samstaða Vesturlanda í viðbrögðum sínum hefur verið meiri en menn kannski væntu, sem betur fer, en við þurfum að huga að því hvernig við getum komið að mestu liði hér, Íslendingar, til lengri og skemmri tíma. Það blasir við að fyrsta verkefnið er að hjálpa fólki sem er á flótta frá Úkraínu og ljóst að flóttamannastraumurinn verður sá mesti í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Við höfum þegar veitt fleira fólki hæli á Íslandi en Bretar hafa gert og það munu margir fleiri fylgja á eftir. En við þurfum líka að styðja við þjóðirnar og löndin næst Úkraínu þar sem álagið er mest vegna straums flóttamanna og ekki gleyma þeim sem starfa í nærumhverfinu þó að stuðningur við þau lönd sé ekki eins sýnilegur og það sem við gerum hér á Íslandi.

Ræðu Sigmundar má sjá í heild sinni hér.