Umferð um Hornstrandir

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins beindi eftirfarandi fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðherra á Alþingi í dag:

"Nýfallinn sýknudómur vegna lendingar þyrlu innan friðlandsins á Hornströndum hefur vakið athygli. Nú er það þannig að það er óheimilt, eins og segir í reglum Umhverfisstofnunar, bæði að fljúga og lenda þyrlum innan friðlandsins nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Mig langar að spyrja hæstvirtan ráðherra hvort hann og hans fólk hafi gaumgæft þennan dóm og hvort með þessari sýknu verði hugsanlega nauðsynlegt að skerpa á lagaákvæðum hvað þetta varðar.

Mig langar líka að spyrja hæstvirtan ráðherra hvernig ráðuneyti hans og stofnanir hyggist fylgja eftir reglum um að hámark 50 farþega megi setja í land á Hornströndum hverju sinni. Nú er það þannig að búið er að tilkynna að skemmtiferðaskip verði á ferðinni, hringsóli kringum Ísland. Það hefur flogið fyrir að þessi skip hafi sett í land farþega og fleiri en þá 50 sem áskilið er í reglum sem Umhverfisstofnun hefur sett.

Spurningarnar eru tvær: Hafa hæstv. ráðherra og hans fólk gaumgæft nýfallinn sýknudóm og eru þar ástæður til að herða löggjöf? Hvernig hyggst ráðherra og hans fólk tryggja að ekki fleiri en 50 farþegar verði settir í land á Hornströndum í einu?"

Ræðu Þorsteins í þingsal má sjá hér