Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra

Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fór fram miðvikudagskvöldið 14. september, Sigmundur Davíð flutti ræðu fyrir hönd Miðflokksins. 

 

Forseti. Góðir landsmenn. Stefnuræða forsætisráðherra var nær fullkomin kynning á því sem einkennir þessa ríkisstjórn. Þar snýst allt um umbúðir fremur en innihald og um yfirlýst markmið fremur en raunveruleg áhrif. Byrjað var á loftslagsmálunum, gríðarstórt viðfangsefni sem kallar á að við skoðum raunveruleikann fremur en þá sýndarmennsku sem þessi stjórn starfar eftir. Stjórnin státar sig af því að setja sífellt erfiðari loftslagsmarkmið en án raunhæfra leiða til að ná þeim. Í vor uppgötvaði hún t.d. að til að ná orkuskiptum þyrfti að auka orkuframleiðslu. Það er eitt að setja sér markmið en þegar þeim reyndist erfitt að finna leiðirnar til að ná þeim markmiðum var gripið til þess ráðs að lögfesta markmiðin. Það sýnir hversu ráðandi umbúðamennskan er orðin. Má þá vænta þess að ríkisstjórnin fari að státa sig af eigin árangri í íþróttamálum með því að setja lög um að innan 20 ára skulu Íslendingar vera orðnir Evrópumeistarar í fótbolta bæði í karla- og kvennaflokki.
Í stefnuræðu sinni talaði forsætisráðherra um mikilvægi fæðuöryggis. Það var ánægjulegt að heyra, enda hefur Miðflokkurinn ætíð bent á mikilvægi þess að tryggja fæðuöryggi og leiðir til þess. Á fimm ára ferli þessarar ríkisstjórnar hefur hins vegar verið sótt að innlendri matvælaframleiðslu úr mörgum áttum samtímis. Skammt er síðan ríkisstjórnin, sem nú bendir á að stríðið í Úkraínu hafi minnt á mikilvægi fæðuöryggis, lagði fram áform um samdrátt í íslenskum landbúnaði vegna loftslagsmarkmiða. En innrás Rússa í Úkraínu hefur líka minnt á mikilvægi orkuframleiðslu og orkuöryggis. Verðhækkanir voru reyndar byrjaðar löngu fyrir upphaf stríðsins. Sums staðar í Noregi hafði orkuverð þegar tífaldast. Vesturlönd höfðu algerlega vanrækt orkuöryggi og nauðsynlega framleiðslu, einkum á náttúrugasi, ekki hvað síst vegna rétttrúnaðar í loftslagsmálum. Norðmenn hafa hins vegar nú gefið út 53 ný leyfi til olíu- og gasvinnslu. Nýr forsætisráðherra Bretlands boðar aukna framleiðslu á sjó og landi og Bandaríkjaforseti biður Sádi-Arabíu og Venesúela og önnur lönd um að auka framleiðslu sína.
En hvað gerir ríkisstjórn Íslands við þessar aðstæður? Forsætisráðherra kemur hér fyrir þingið, talar um orkuöryggi og Úkraínustríðið en boðar um leið bann við gasvinnslu í íslenskri lögsögu og bann við rannsóknum. Með öðrum orðum: Ríkisstjórnin ætlar að koma í veg fyrir að Íslendingar geti nýtt og boðið fram eigin auðlindir en eftirláta þess í stað öðrum að sinna óhjákvæmilegri orkuþörf og þá væntanlega ekki hvað síst Rússum. Ráðherrann segir að með þessu verðum við fyrirmynd. Fyrirmynd í hverju? Sýndarmennsku og því að loka augunum fyrir raunveruleikanum. Þetta er allt svona. Það var blásið til glærusýningar þar sem fullyrt var að með fjárlögum næsta árs yrði sérstaklega tekist á við verðbólgu. En hvernig var svo innihaldið? Jú, þar birtust áform um að hækka allt sem hægt var, endalausar gjalda- og skattahækkanir en þó einkum þeirra gjalda sem hafa áhrif á alla óháð fjárhag. Ríkisstjórnin boðar enn auknar álögur á eldsneyti og samgöngur en svo mætir forsætisráðherra í þingið daginn eftir og lýsir áhyggjum af hækkandi orkuverði. Reyndar fylgdi það sögunni að við ættum að gleðjast yfir því að hafa byggt upp eigin orkuframleiðslu. Það var ágætt að heyra frá ríkisstjórn þriðja orkupakkans um alþjóðavæðingu í orkumálum. Svo benti ráðherrann réttilega á að Íslendingar hefðu tekið góðar og framsýnar ákvarðanir um orkuframleiðslu hingað til og átti þá væntanlega m.a. við Blönduvirkjun, Þeistareykjavirkjun og Kárahnjúka. En nú snýst allt um óskhyggju og umbúðir fremur en raunveruleika innihaldsins.
Hversu margar kynningar höfum við séð um áform stjórnarinnar í samgöngu- eða húsnæðismálum og oft undir handleiðslu kynningarteymis borgarstjórans í Reykjavík? Hvað var kynnt? 15.000, 18.000, 20.000 og loks 35.000 íbúðir. Nýjasta kynningin rétt fyrir þingsetningu virtist þó bara vera endursýning. Hugsanlega hefur kynningarteymið áttað sig á því að of fáir tóku mark á fyrri sýningunni.
Hér er hugmynd fyrir ríkisstjórnina: Gæti verið ráð að hún lærði af sjálfri sér og setti bara lög um hversu margar íbúðir næstu ríkisstjórnir skuli byggja? Hugsanlega mætti grípa í annað af helstu ráðum þessarar ríkisstjórnar og búa til nýjar stofnanir eða pakka þeim inn í nýjar umbúðir. Þegar fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið talaði hann ekki bara um mikilvægi þess að draga úr verðbólgu, að því er virðist með gjaldahækkunum, heldur líka um mikilvægi þess að draga úr fjölda ríkisstofnana. Svo mætir forsætisráðherra hér daginn eftir og kynnir nýjar stofnanir, Mannréttindastofnun ríkisins, sem bætist þá væntanlega við mannréttindaráð og aðrar stofnanir með sömu hlutverk. Á meðan þau gildi sem hafa reynst okkur best um aldir og skilað mestum árangri við að bæta mannréttindi og lífskjör eru vanrækt er bætt við stofnunum.
Öll þessi sýndarmennska er afleiðing af því að þessi ríkisstjórn var ekki mynduð um stjórnmálastefnu heldur stólakaup. Fyrir vikið tala ráðherrarnir hver í sína áttina. Samhliða kynningu fjárlaga sagði fjármálaráðherra landsmönnum hversu mikilvægt væri að auka einkarekstur í heilbrigðisþjónustu. Daginn eftir útskýrði forsætisráðherra hversu mikilvægt væri að gera það ekki. En við vitum hvað verður ofan á. Reyndar talaði forsætisráðherra um mikilvægi málamiðlana og e.t.v. verður ágreiningurinn leystur með því að stofna nýja heilbrigðismálastofnun. Sýndarmennska og rétttrúnaður þola illa gagnrýni og þá er jafnvel reynt að banna gagnrýni. Á þessu þingi munu þingmenn Miðflokksins verða óhræddir við að gagnrýna ríkisstjórnina en einnig leggja fram lausnir sem byggja á innihaldi og raunverulegum áhrifum. Ekki veitir af.

Ræðu Sigmundar má sjá hér