Upplýsingastefna ríkisstjórnarinnar

Ólafur Ísleifsson þingmaður Miðflokksins beindi eftirfarandi fyrirspurn varðandi upplýsingastefnu ríkisstjórnarinnar til forsætisráðherra á Alþingi í dag:

"Á okkar tímum er lögð mikil áhersla á gagnsæi og upplýsingamiðlun. Þessa sér stað í stjórnarsáttmálanum þar sem segir, með leyfi forseta:  „Ríkisstjórnin leggur áherslu á góð vinnubrögð, opna stjórnsýslu og gagnsæi. Kappkostað verður að miðla upplýsingum um ákvarðanir og ferli sem varða hagsmuni almennings með aðgengilegum hætti.“  Þá ætla ég að leyfa mér, herra forseti, að vitna til fréttar sem birtist á vefsíðu Fréttablaðsins 21. apríl síðastliðinn, síðasta vetrardag. Þar er frétt sem er reist á efni fylgiskjals með skýrslu um fyrirkomulag sóttvarna á landamærum. Í fréttinni kemur fram að fylgiskjalið hafi upphaflega ekki verið birt með skýrslunni. Síðan er fjallað um efni fylgiskjalsins. Segir áfram í fréttinni, með leyfi forseta:  „Skýrslan sem um ræðir var birt á vef Stjórnarráðsins 15. janúar en í hana vantaði fylgiskjal 3. Því hefur nú verið bætt í vefútgáfu skýrslunnar en samkvæmt svari Stjórnarráðsins við fyrirspurn Fréttablaðsins, þar sem óskað var eftir bæði skjalinu og útskýringum á því hvers vegna það vantaði í skýrsluna, segir: „Ráðuneytið taldi óvarlegt að birta fylgiskjal 3 nema að betur athuguðu máli.““
Þá vil ég leyfa mér að spyrja hæstvirtan forsætisráðherra: Telur hæstvirtur forsætisráðherra þessa framkvæmd vera í samræmi við upplýsingastefnu ríkisstjórnarinnar sem ég vitnaði til í upphafi ræðu minnar? Telur hún ástæðuna sem gefin er upp af hálfu ráðuneytisins í svari til blaðsins málefnalega ástæðu?"

Upptöku úr þingsal má sjá hér