Vandi verslana í dreifbýli

Karl Gauti Hjaltason ræddi um vanda verslunar í dreifbýli í störfum þingsins á Alþingi í dag:

"Ég ætla að ræða hér um vanda verslunar í dreifbýli. Tilefnið er nýleg lokun dagvöruverslunarinnar á Kirkjubæjarklaustri þar sem íbúar í Skaftárhreppi þurfa nú að fara um langan veg til að kaupa venjubundnar vörur til heimilisins. Erfið rekstrarskilyrði verslunar í fámennum byggðum er ekki ný saga. Þegar fólk velur sér búsetu skiptir miklu máli hvaða þjónusta er á staðnum. Í raun er það oft ákveðin ástæða fyrir því hvar fólk ákveður að setjast að þótt atvinnumöguleikar eigi þar eðlilega stærsta þáttinn. Margvísleg þjónusta, sem fólki á höfuðborgarsvæðinu finnst sjálfsögð, eins og heilsugæsla, grunn- og leikskólar, sundlaug, lyfjaverslun, íþróttaaðstaða, bankaútibú og dagvöruverslun er í hugum margra sú aðstaða og sú þjónusta sem á að vera í næsta nágrenni við heimili. Þegar eina dagvöruverslunin í víðfeðmu sveitarfélagi lokar kemur það hart niður á íbúunum. Rekstur dagvöruverslana í fámennum héruðum er ávallt erfiðari en til að mynda hér á höfuðborgarsvæðinu.

Herra forseti. Matvörukeðjurnar reka verslanir víða um land og ná stundum fullmiklum tökum á rekstri verslana á stórum svæðum. Slíkt getur raskað samkeppni og valdið hærra vöruverði, lakari þjónustu og minna vöruúrvali. Með þessu á Samkeppniseftirlitið að fylgjast og gæta réttar íbúanna og samkeppnisaðilanna svo heilbrigð samkeppni megi þrífast. Í fámennu og dreifbýlu landi getur það reynst þrautin þyngri. Fyrst og síðast og mikilvægast er að hlúa að möguleikum íbúanna á þjónustu í nærumhverfi sínu og samkeppnishæfi og að þjónustan sé á viðráðanlegu verði. Gæta verður vel að og taka tillit til allra sjónarmiða; þjónustuhlutverksins, rekstraraðilanna og allra helst íbúanna sjálfra."

Ræðu Karls Gauta má sjá hér