Varnargarðar á gosstöðvum

Sigurður Páll Jónsson tók þátt í störfum þingsins og ræddi þar um fyrirhugaða varnargarða á gosstöðvunum:

"Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir það sóun að ætla að stöðva hraunið með varnargörðum. Hafist var handa í gær við að hækka varnargarða á gosstöðvunum upp í 8 metra hæð eftir að ríkisstjórnin samþykkti að verja 20 millj. kr. til verksins. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur telur þetta sóun og að engin leið sé að stöðva hraunið með varnargörðum. Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að ríkisstjórnin samþykkti fyrir helgi gerð 4 metra hárra varnargarða á gosstöðvunum. Hún samþykkti svo í gær að þeir færu upp í 8 metra hæð og var byrjað strax á því að hækka garðana.

„Eins og málið lítur út í dag þá virðist þessi framkvæmd vera út í hött. Það hraun sem er að renna þarna ætlar ekkert að fara þá leið sem menn vilja að það fari“, segir Páll Einarsson, sem á að baki hálfrar aldar vísindaferil og er prófessor emeritus við Háskóla Íslands. Hann segir hraun almennt renna undan halla. „Það er núna halli á þessum varnargörðum, sem komnir eru. Ef hraunið ætlar að fara þá leið, þá fer það þá leið. Það er engin leið að breyta því.“

Þetta hraun er ekkert á leið niður í Meradali, segir prófessorinn, það allra versta sem gæti gerst er að það færi yfir Suðurstrandarveg og veg í gegnum svona hraun er mjög auðvelt að laga eftir á.

Ég spyr því: Af hverju var ekki haft samband eða samráð við sérfræðing, jarðeðlisfræðing, í undirbúningi eða í umræðu um hvernig hægt er að nálgast slíkar náttúruhamfarir eins og verið er að gera þarna?"

Ræðu Sigurðar Páls í þingsal má sjá hér