Vetrarþjónusta borgarinnar

Bergþór Ólason tók til máls í störfum þingsins þar sem hann vakti máls á bréfi sem starfsemnn vetrarþjónustu borgarinnar sendu yfirmönnum sínum.

 

Virðulegur forseti. Það opnaðist óvænt gluggi inn í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar nú nýlega þegar bréf sem starfsmenn vetrarþjónustu borgarinnar höfðu sent yfirmönnum sínum komst í almenna umræðu. Starfsmenn vetrarþjónustunnar höfðu fengið sig fullsadda af ástandinu sem þeir lýstu, með leyfi forseta, þannig að afstaða borgarinnar mótaðist af hringlandahætti, þekkingar- og skilningsleysi á verkefninu og virðingarleysi í garð þeirra sem því sinna. Í lok bréfsins var svo kvartað undan mismunun, hroka og einelti sem væri rótgróið í Reykjavíkurborg og bréfritarar vildu rekja til þess að þeir væru ekki langskólagengnir.
Þetta er nöturleg lýsing þeirra sem vinna baki brotnu við að tryggja að íbúar höfuðborgarinnar komist leiðar sinnar, götur og stígar séu mokaðir með forsvaranlegum hætti og hálkuvörnum sinnt. Þetta snýst nefnilega ekki bara um að íbúar borgarinnar og þeir sem sækja hana heim komist leiðar sinnar í hefðbundnum erindisrekstri hversdags heldur er þetta mikilvægt öryggisatriði. Sjúkrabílar, slökkviliðsbílar, lögregla og fleiri þurfa að komast leiðar sinnar. Sérstaklega þótti mér nöturlegt þegar fréttir voru sagðar af því að fólk í sambýlum borgarinnar hefði gleymst en það hafði verið innilokað svo dögum skipti vegna færðar.
Virðulegur forseti. Hvað er það sem veldur? Er þetta misskilin leið meiri hlutans í borginni til að minna á hatur sitt á fjölskyldubílnum? Er meiri hlutinn tilbúinn til að fórna svo miklu að hjólandi og gangandi séu látnir líða fyrir, enda öllum orðið ljóst að svokallaðir virkir ferðamátar, sem eru t.d. gangandi og hjólandi, verða nú um stundir að líða fyrir þetta stríð borgarinnar við fjölskyldubílinn? Stefna Reykjavíkurborgar gagnvart nagladekkjum verður síðan einn stór brandari þegar viðbrögð síðustu daga eru skoðuð.
Þessum árásum á samgöngukerfið verður að linna. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að starfsmenn vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar séu ekki virtir viðlits af þeim sem ofar sitja í skipuritinu en þegar það fólk sem mest þarf á þjónustu að halda er farið að líða fyrir þá er mál að linni.

 

Ræðuna má sjá í heild sinni hér