Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 31. október ræddi nýr fjármálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, tvö mál við Magnús Geir Eyjólfsson fréttamann ríkisútvarpsins.
Fyrst það sem virtust vera hugmyndir ráðherrans um endurskoðun á því hvernig húsnæðisliður vísitölu neysluverðs skuli metinn. Öll þekkjum við það deiluefni, sem verið hefur viðvarandi í umræðunni um langa hríð. Mest kom á óvart að áhrif húsnæðisliðarins hafi komið nýjum fjármálaráðherra á óvart.
Nýi fjármálaráðherrann, sem er varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gæti átt orðastað við gamla fjármálaráðherrann, sem er formaður Sjálfstæðisflokksins. Sá var ekki hrifinn af vangaveltum sem þessum í ráðherratíð sinni. Sjáum hvað setur, en spá mín er að eftir langa og yfirvegaða skoðun þá verði engu breytt.
Hitt atriðið, sem mér sjálfum þótti meiru skipta, voru viðbrögð fjármálaráðherra við hugmynd formanns Miðflokksins um tímabundið afnám virðisaukaskatts af matvælum sem verkfæri í baráttunni við verðbólguna.
Fjölþætt áhrif yrðu af slíkri breytingu. Meðal annars kæmi lækkað matvælaverð fram í lækkun á verðbólgumælingum. Áhrifin yrðu hlutfallslega mest hjá heimilum sem lægstar tekjur hafa. Fyrir utan auðvitað það augljósa; að ríkið tæki minna til sín frá heimilum landsins en í stefnir. En það má víst ekki.
Viðbrögð ráðherra í viðtalinu voru þau að segja af og frá að slíkt gagnaðist sem tæki gegn verðbólgu og sagði svo að „fyrir utan verðmiðann á slíku og áhrif á hagkerfið, þá er ég nú ekki sammála því að það væri snjallt“.
Það er auðvitað ágætt að afstaða ráðherrans liggi fyrir. Verra er að hún setji sig með henni í flokk með álitsgjöfum sem hafa þann einstaka hæfileika að hafa aldrei rétt fyrir sér.
Til að setja verðmiðann í samhengi, þá er hann lægri en bara árlegur kostnaðarauki af málefnum hælisleitenda síðan Sjálfstæðisflokkurinn tók við fjármálaráðuneytinu undir forystu forvera Þórdísar Kolbrúnar í embætti.
Og varðandi það að aðgerð sem þessi sé hluti af lausninni í baráttunni við verðbólguna, þá má nefna sem dæmi að í Portúgal tóku stjórnvöld ákvörðun um einmitt þetta, að afnema virðisaukaskatt tímabundið af tilteknum matvælum. Skemmst er frá því að segja að þeim í Portúgal gengur mun betur í slagnum við verðbólguna en okkur hér heima.
En á meðan ríkisútgjöldin eru jafn stjórnlaus og raun ber vitni er ekki ljóst hvað dugar til að ná niður verðbólguvæntingum og verðbólgunni sjálfri í framhaldinu.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is