Aðalfundur Miðflokksfélags Norðausturkjördæmis

Aðalfundur Miðflokksfélags Norðausturkjördæmis var haldinn í Mývatnssveit laugardaginn 25. mars s.l.  Nokkur fjöldi fólks mætti á fundinn þó svo veður hafi ekki endilega verið með besta móti, vetrarfærð, en fólk lét það ekki á sig fá og kom víða að úr kjördæminu. 

Sigríður Bergvinsdóttir formaður Miðflokksfélags Norðausturkjördæmis setti fund og bauð fólk velkomið. Flutti hún skýrslu stjórnar og rakti starf félagsins og bar þar hæst Flokksráðsfundur á Egilsstöðum í október s.l. sem að þessu sinni var á forræði kjördæmafélags Norðaustur.  Fór sá fundur vel fram og ríkti bjartsýni meðal fundarmanna varðandi framtíðina.

Björn Ármann Ólafsson gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins og ljóst að rekstur félagsins og deilda var þungur eins og gera má ráð fyrir á kosningaári.

Einar Birgir Kristjánsson formaður laganefndar flokksins kynnti lagabreytingar sem lögð voru fyrir fundinn þar sem lög kjördæmafélagsins voru samræmd lögum flokksins.

Kosin var ný stjórn og í henni sitja: Sigríður Valdís Bergvinsdóttir Akureyri formaður, Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir Raufarhöfn, Bjarney Guðbjörnsdóttir Eyjafjarðarsveit, Hákon Hákonarson Akureyri og Björn Ármann Ólafsson Egilsstöðum.

Undir liðnum önnur mál var góð umræða og margir tóku til máls þar sem bent var á ýmislegt sem betur má fara í starfsemi flokksins og var vel tekið í það.

Að fundi loknum var öllum boðið að þiggja veitingar í boði Miðflokksfélags Norðausturkjördæmis.  Að því loknu hélt fólk til síns heima ágætlega sátt við fundinn og þá umræðu sem þar fór fram.