Ævintýri þingmálanna

Það er fátt meira opinberandi fyrir ríkisstjórn en þingmálaskráin sem lögð er fram við upphaf nýs þingvetrar. Þar má sjá öll málin sem ráðherrarnir ætla sér að koma í gegnum þingið. Málin eru misjöfn – mörg til þess fallin að setja þingstörfin á hliðina en önnur týnast á milli þinga.

Tvö slík mál, sem lögð voru fram á liðnu þingi, var hvergi að finna í nýrri þingmálaskrá sömu ríkisstjórnar. Það var annars vegar mál forsætisráðherrans um hatursorðræðu og mál umhverfisráðherra um bann við rannsóknum við olíu- og gasvinnslu. Bæði mál sem sættu mikilli gagnrýni af augljósum orsökum. Það fyrra átti að þvinga alla á námskeið þar sem kennt yrði hvernig skal tala og hugsa, allt í boði vinstri grænna. Hitt málið var fyrsta sinnar tegundar, að banna rannsóknir. Gott að þau séu frá.

En þá tekur við mál umhverfisráðherra um innleiðingu á „Fit for 55“ loftslagsgjaldapakka ESB – þrátt fyrir augljósa ágalla þess regluverks og óhagræði fyrir íslenskt atvinnulíf.

Ríkisstjórnin ætlar svo ekkert að slá af stækkun báknsins með þingmáli forsætisráðherra um nýja stofnun, Mannréttindaskrifstofu Íslands. Það eru bara nokkrar slíkar þegar til og því hægðarleikur að koma verkefnum þessarar nýju fyrir þar.

Félags- og vinnumarkaðsráðherra ætlar svo að bíða fram yfir áramót með að leggja fram frumvarp um störf ríkissáttasemjara. Af hverju að bíða þegar tíminn er núna?

Heilbrigðisráðherra gerir aðra tilraun til að innleiða nýja heildarlöggjöf í sóttvarnamálum og það áður en heildstæð úttekt hefur farið fram á áhrifum ákvarðana stjórnvalda í COVID-faraldrinum. Væri ekki nær að flýta sér hægt og læra af fortíðinni?

Innviðaráðherra vill svo veita undanþágu frá skipulags- og byggingarlöggjöf til að auðvelda stjórnvöldum að nýta atvinnuhúsnæði sem íbúðarhúsnæði – undir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Það var og.

Áform matvælaráðherra um heildarendurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar geta svo varla orðið til annars en að setja störf þingsins á hliðina þegar þar að kemur. Enda ráðherrann vanur að fara sínu fram, óháð öllum skýrslum, starfshópum, skynsemi, lögum og reglu, þegar þannig ber undir.

Utanríkisráðherra þrammar svo aftur fram með bókun 35 og grefur þannig undan fullveldinu.

Mest spennandi mál þingvetrarins kemur reyndar líka frá utanríkisráðherra en í nóvember ætlar hún að leggja fram „Tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar sem ekki hefur enn verið tekin.“ Það verður varla bersýnilegra hve ráðherrann er seldur undir ægivald Evrópu.

Við þingmenn Miðflokksins förum hins vegar tilbúnir inn í nýjan þingvetur – tilbúnir að taka slaginn fyrir skattgreiðendur, fullveldið og frelsið. Það munar um Miðflokkinn.