Allir fá þá eitthvað fallegt …

Allir fá þá eitthvað fallegt …

Fimmtudagur, 6. júní 2024
 

Árleg vinna við svo­kallað þingloka­sam­komu­lag er nú í gangi. Þing­flokks­for­menn stjórn­ar­flokk­anna funda með þing­flokks­for­mönn­um and­stöðu og til­kynna að nú standi svo vel á í þing- og nefnda­störf­um að út­lit sé fyr­ir að öll stjórn­ar­mál sem mælt hafi verið fyr­ir á þing­inu klárist. Þetta er hefðbundið.

Þing­flokks­for­menn stjórn­ar­and­stöðu brosa innra með sér og hugsa: það er ein­mitt það.

Þegar pist­ill­inn birt­ist verða sjö dag­ar eft­ir af starfs­áætl­un Alþing­is, þar af er ein­um varið til svo­kallaðrar eld­hús­dagsum­ræðu. Sem sagt sex þing­funda­dag­ar. Það er auðvitað vanda­laust að bæta tíu dög­um við, til loka júní, en þá þreng­ir held­ur að hvað svig­rúm til slíks varðar. Sjálf­ur vil ég gjarn­an sjá þingið standa til loka júní, en sjá­um hvað set­ur.

Þegar mál­ar­una ráðherr­anna, upp á tæp­lega átta­tíu þing­mál, er skoðuð er átak­an­legt að sjá hversu fá þeirra eru raun­veru­lega til gagns fyr­ir land og þjóð.

Óli Björn Kára­son, fyrr­ver­andi þing­flokks­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, orðaði þetta ágæt­lega í grein sem birt­ist hér á leiðara­opn­unni í gær, þar sem hann sagði: „Öllum má vera ljóst að úti­lokað er að af­greiða öll stjórn­ar­mál á yf­ir­stand­andi þingi, þótt ráðherr­ar eigi enga ósk heit­ari. En hvorki him­inn né jörð mun far­ast.“ Þetta er hár­rétt hjá Óla Birni, en enn berja ráðherr­arn­ir hausn­um við stein­inn.

En hvað fá þing­flokk­arn­ir svo út úr þessu þegar til kast­anna kem­ur? Nú fær þing­flokk­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins nýja Mann­rétt­inda­stofn­un og stór­hækkuð lista­manna­laun, þing­menn Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs fá hert út­lend­inga­lög (þó fyrr hefði verið) og breytt lög­reglu­lög. Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins fær auk­in rík­is­út­gjöld (eins og vana­lega). All­ir ætla þeir sér að ljúka þing­vetr­in­um með óbragð í munni, sönglandi möntr­una um að „þetta væri enn verra ef við vær­um ekki í þessu sam­starfi“. En er það svo, í raun?

Allt ber þetta að sama brunni, hátt í átta­tíu frum­vörp og þings­álykt­an­ir eru enn á færi­band­inu. Mark­miðið virðist á köfl­um vera að hafa flókn­ustu og um­deild­ustu mál­in öll í einni bendu á loka­dög­um þings­ins, mögu­lega til að sleppa við efn­is­lega umræðu um þau eft­ir að þingloka­samn­ing­ar nást. Svo leiðrétta menn vill­urn­ar og mis­tök­in bara þegar bet­ur stend­ur á.

En má ég biðja um færri frum­vörp og þings­álykt­an­ir, best væri ef þær væru til gagns fyr­ir land og þjóð og að sam­hljóm­ur væri með efn­is­atriðum og þeim mark­miðum sem ætl­un­in er að ná fram. Svo væri gott ef stjórn­ar­flokk­arn­ir myndu láta af þess­ari linnu­lausu út­gjalda­aukn­ingu, útþenslu bákns­ins og þeirri til­hneig­ingu að gera líf borg­ar­anna flókn­ara og leiðin­legra.

Ef ekki, nú þá verð ég bara að biðja um kerti og spil.