Fjölbreytt búsetuúrræði fyrir okkar besta fólk

Það dýrmætasta sem maður gerir í kosningabaráttu er að hlusta á fólk. Einn hóp er sérlega gaman að tala við og það eru eldri borgar, okkar besta fólk eins og við segjum í Miðflokknum. Það fyrsta sem maður tekur eftir er hve fjölbreyttur hópur þetta er. Það að eldast sviptir þig ekki sérkennum eða persónuleika. Eldra fólk hefur frá miklu að segja, ígrundar hlutina og hefur hógværar og eðlilegar óskir til okkar sem erum að fást við stjórnmál.

Það er eitt atriði sem mig langar að ávarpa sérstaklega en það tengist búsetuúrræðum aldraðra en um það hef ég fengið fjölmargar ábendingar sem við Miðflokksmenn ætlum að taka til gagngerrar skoðunar enda fellur það vel að sýn okkar að fjölbreyttum lausnum fyrir alla. Þannig er ljóst að búseta á eigin heimili hentar ekki öllum, jafnvel þótt þeir þurfi ekki dvöl á hjúkrunarheimili. Það er hins vegar svo að búsetuúrræði fyrir eldra fólk eru allt of fábreytt eins og staðan er í dag. Því virðist sem svo að það vanti millistig milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimili og þetta hefur Landssamband eldri borgara verið að minna á. Það er brýnt að byggja upp þannig búsetuform til hagsbóta fyrir eldra fólk og þá ekki síður fyrir velferðarkerfið, sem er á forræði ríkis og sveitarfélaga. Þessi búsetuform þurfa ekki að vera dýr, geta fallið inn í borgarskipulag og tengst öðrum búsetuúrræðum, svo sem hjá stúdentum og tengt þessa hópa saman.

Eins og allir vita höfum við úr fjármunum Framkvæmdasjóðs aldraðra að moða en ákvæði kveða á um að þeim verði einungis varið til byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu við þá eins og kveðið er á um í lögum. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða upp á nýtt um leið og við gerum gangskör í að efna skyldur okkar við okkar besta fólk.

Það getur engin ætlast til þess að eldri borgarar bíði lengur eftir ásættanlegum lausnum. Miðflokkurinn ætlar að bæta kjör eldri borgara á næsta kjörtímabili. Atkvæði til Miðflokksins þýðir atkvæði fyrir leiðréttingu á aðstæðum og kjörum eldri borgara. Það er löngu tímabært.

 

Vilborg Þóranna Bergmann Kristjánsdóttir er lögfræðingur og sáttamiðlari og skipar 1. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir komandi alþingiskosningar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 24. september, 2021