Flutningskerfi raforku til Suðurnesja og öryggi þess

Birgir Þórarinsson tók til máls í störfum þingsins á Alþingi í dag og ræddi flutningskerfi raforku til Suðurnesja og öryggi þess.

"Herra forseti. Ég vil undir þessum lið ræða flutningskerfi raforku til Suðurnesja og öryggi þess, einkum með tilliti til þeirra jarðhræringa sem átt hafa sér stað á Reykjanesi í á þriðju viku. Ekki er deilt um nauðsyn þess að styrkja flutningskerfi raforku til Suðurnesja. Hins vegar hefur verið deilt um með hvaða hætti flytja eigi orkuna, hvort leggja eigi nýja loftlínu eða jarðstreng. Deilur þessar hafa staðið um árabil og verður að segjast eins og er að ríkisvaldið og Landsnet hafa haldið illa á málum. Voru stjórnvöld m.a. gerð afturreka með eignarnámsheimild og málið er enn í hnút. Við undirbúning nýrra flutningsvirkja raforku er að mörgu að hyggja og þar vegur öryggisþátturinn þungt. Jarðskjálftahrinan undanfarnar vikur á Reykjanesi og hugsanlegt gos samfara henni vekur upp spurningar um hvort flutningskerfi til Suðurnesja geti verið í hættu og hvort núverandi línustæði sé yfir höfuð heppilegt með tilliti til jarðhræringa. Hugmyndir um sæstreng milli Straumsvíkur og Suðurnesja eru ekki nýjar af nálinni. Fullt tilefni er til að skoða þennan möguleika nú af fullri alvöru í ljósi undanfarinna atburða og ekki síst í ljósi þess að vísindamenn telja að Reykjanesskaginn sé á leið inn í nýtt tímabil jarðhræringa sem gæti staðið yfir um áratugaskeið.

Herra forseti. Ég tel eðlilegt að stjórnvöld fari þess á leit við Landsnet að nú þegar verði hafin vinna við áætlun um lagningu sæstrengs til Suðurnesja."

Upptöku af ræðu Birgis í þingsal má sjá hér