Fram af brúninni í innflytjendamálum

Íslenskir stjórnmálaflokkar (með einni undantekningu) virðast hafa einsett sér að læra ekki af reynslu nágrannalandanna í innflytjendamálum heldur endurtaka mistökin og gera það hraðar og í meira mæli en annars staðar.

Árum saman höfum við í þingflokknum varað við þróuninni og hvers væri að vænta. Nokkur ár eru liðin síðan við bentum á að fjöldi hælisleitenda á Íslandi væri hlutfallslega orðinn sexfaldur á við Danmörku og Noreg og að það væri afleiðing stefnu og skilaboða íslenskra stjórnvalda. Munurinn hefur nú aukist til muna. Áður leituðu hlutfallslega fæstir til Íslands. Lega landsins gerði okkur kleift að velja hverjum yrði boðið hæli á Íslandi og taka vel á móti því fólki.

Nú í október sóttu tvisvar og hálfu sinnum fleiri um hæli á Íslandi á einum mánuði en nam öllum kvótaflóttamönnum sem komu til Íslands á 35 ára tímabili frá því að Ungverjar komu árið 1956 og þar til síðasti hópur Víetnama kom 1991. Frá stofnun flóttamannaráðs 1995 hefur flóttamönnum verið boðið til landsins flest árin. Þeir voru að meðaltali 24 á ári fram til 2019. Metnaður var lagður í að taka vel á móti fólkinu. Það átti rétt á húsnæði, fjárstuðningi og ýmiss konar þjónustu. Á þessu ári er gert ráð fyrir að yfir 5.000 manns sæki hér um hæli. Þar af eru um 2.000 frá Úkraínu en um þá gilda sérstakar reglur og móttakan tímabundin neyðarráðstöfun.

Eftir að stjórnvöld tóku að víkja frá reglum á borð við Dyflinnarreglugerðina og kröfu um að fólk leitaði hælis á fyrsta áfangastað og kerfið á Íslandi var flækt að því marki að mál gætu tafist árum saman jókst ásókn gríðarlega. Nú er svo komið að „milliliðir“ selja ferðir til Íslands og aðgang að íslenska velferðarkerfinu. Oft er fólk sent af stað í hættuför vegna væntinga um Ísland sem áfangastað og stundum er það skuldbundið til að greiða ferðina eftir komuna til Íslands með góðu eða illu. Fyrir vikið rennur ríkisstuðningur í sumum tilvikum til erlendra glæpamanna.

Þetta er það sem dönsk stjórnvöld vilja koma í veg fyrir þar í landi. Mette Frederiksen forsætisráðherra sagði að Danmörk mætti ekki vera söluvara glæpagengja. Markmiðið ætti að vera að enginn mætti til landsins til að sækja þar um hæli. Danir myndu hins vegar áfram taka við kvótaflóttamönnum, velja hverjum yrði boðið til landsins og gera kröfur til þeirra.

Íslenska ríkisstjórnin hefur haldið áfram að fara í þveröfuga átt. Við lok síðasta þings tókst henni, í þriðju tilraun, að troða í gegn frumvarpi um samræmda móttöku til að veita öllum sem fá hæli eða landvistarleyfi sömu réttindi, þjónustu og greiðslur, óháð því hvernig þeir koma. Þúsundir munu nú eiga rétt á því sama og við töldum okkur í stakk búin að veita 24 á ári fyrir fáeinum árum. Um leið er Ísland orðið vænlegri söluvara en nokkru sinni áður.

Lög og stefna

Við þetta bætist að stjórnmálamenn hafa að miklu leyti gefið frá sér vald yfir málaflokknum. Þannig tók svo kölluð kærunefnd útlendingamála ákvörðun um að allir ríkisborgarar Venesúela sem sækja hér um ættu rétt á hæli. Það er vegna sósíalistastjórnarinnar þar í landi. Ekki leið á löngu áður en mörg hundruð manns með vegabréf frá Venesúela komu til landsins í þeim tilgangi. Þeir verða líklega um 1.000 á þessu ári (langt umfram þann fjölda sem sækir til annarra Evrópulanda) en grunur leikur á að langt því frá allir séu raunverulega frá Venesúela.

Hver verða áhrifin ef kærunefnd útlendingamála fellir sambærilega úrskurði um önnur lönd? Meðal þeirra landa sem eru talin standa svipað að vígi eða verr hvað varðar lífsgæði og öryggi er Pakistan. Þar búa um 250 milljónir og fjölgar hratt. Lengi mætti telja, Bangladess, Hondúras, El Salvador, Kongó o.s.frv.

Þessi leið til að svipta lýðræðislega kjörna fulltrúa og þar með almenning að miklu leyti möguleikanum á að hafa stjórn á þessu gríðarstóra máli byggist á lögum um útlendinga. Fljótlega eftir að ríkisstjórn mín hóf störf tók þáverandi innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins upp á því að fela nefnd skipaðri meirihluta stjórnarandstöðunnar og undir forystu hennar að gera drög að lögunum. Þetta mislíkaði mér ákaflega og gerði ítrekað athugasemdir við uppátækið. Þegar ég var beðinn að bíða og sjá var ég afdráttarlaus um að ef þetta yrði eins og mig grunaði færi málið aldrei í gegnum ríkisstjórnina, það færi ekki einu sinni á dagskrá.

Ég hafði ekki fyrr brugðið mér af bæ en málið var keyrt í gegnum þingið.

Núverandi dómsmálaráðherra hefur viðurkennt að ástandið sé orðið stjórnlaust. En hvað gerir hann í málinu? Hann kemur í fimmta sinn með útlendingafrumvarp sem hefur stöðugt verið þynnt út þar til það er nánast að engu orðið.

Ég batt vonir við að landsfundur Sjálfstæðisflokksins myndi taka á málinu þótt ekki væri nema með skynsamlegri ályktun. Það varð aldeilis ekki. Ef ég hefði séð ályktun sjálfstæðismanna (undir yfirskriftinni „Bjóðum þau velkomin“) við hliðina á ályktun landsfundar Samfylkingarinnar um sama mál hefði ég vart getað giskað á hvor væri hvað. Þær voru að stofni til eins nema hvað sjálfstæðismennirnir bættu við hvatningu um að fjölga kvótaflóttamönnum á sama tíma og hælisleitendum fjölgar stjórnlaust.

Hópur landsfundarfulltrúa fékk reyndar samþykktar breytingartillögur sem voru mjög mildar en til bóta. Þá var brugðið á það ráð að láta kjósa aftur til að fá óbreytta niðurstöðu og útskýrt fyrir fundarmönnum að varfærnari textinn liti illa út fyrir flokkinn. Samfylkingin hefði átt að fagna dómsmálaráðherranum sem hetju þegar hann mætti aftur í þingið eftir þetta.

Heildarmyndin

Íslendingar gera sér grein fyrir mikilvægi erlends vinnuafls við uppbyggingu landsins síðastliðin ár og áratugi. Þegar fjölgun erlendra ríkisborgara (af ýmsum ástæðum) verður skyndilega eins hröð og hún hefur verið allra síðustu ár er þó óhjákvæmilegt að meta áhrifin á samfélagið. Fjölgunin má ekki vera hraðari en svo að þeir sem flytjast til landsins geti aðlagast.

Árið 2018 fluttust meira en fimmtíufalt fleiri útlendingar til Íslands en árið áður en við gengum í EES. Við lok þessa árs verða erlendir ríkisborgarar orðnir yfir 17% landsmanna (innflytjendur eru fleiri). Hlutfallið hefur tvöfaldast á aðeins fimm árum og er skyndilega orðið hið hæsta á Norðurlöndum. Í byrjun ársins var hlutfallið 13,9%, meira en þriggja prósentustiga fjölgun á einu ári er fáheyrð.

Nú liggja fyrir tölur um fjölgun landsmanna á þriðja ársfjórðungi (fæddir umfram látna og aðfluttir miðað við brottflutta). Á þessum þremur mánuðum fjölgaði Íslendingum á landinu um u.þ.b. 300. Á sama tíma fjölgaði útlendingum um 3.500. Útlendingum á Íslandi fjölgaði því nærri tólffalt meira en Íslendingum á tímabilinu. Þetta er miklu hraðari þróun en í nokkru öðru landi.

Þótt við ímyndum okkur stundum að við séum milljónaþjóð þá erum við það ekki. Það þarf að vernda litla samfélagið sem hefur lifað af á þessari eyju í meira en 1100 ár, samhliða því að taka vel á móti nýjum landsmönnum. Í því felast engir fordómar, aðeins heilbrigð skynsemi og lærdómur mannkynssögunnar.

Við þessar aðstæður megum við ekki við stjórnleysi í hælisleitendamálum. Málin verða ekki leyst með frösum og innihaldslausu tali um mannúð. Það er engin mannúð fólgin í því að ýta undir kerfi sem leggur fólk í hættu og gerir okkur ókleift að hjálpa sem flestum þeirra sem eru í mestri neyð.

Nú þarf afdráttarlaus viðbrögð. Útlendingalögin þarf að skrifa upp á nýtt. Við ættum að einsetja okkur að gera sem mest gagn fyrir sem flesta sem eru í mestri neyð með þeim aðferðum sem virka. Við þurfum að ná stjórn á landamærunum og stýra því sjálf hvaða flóttamenn koma til landsins og taka vel á móti þeim. Rétt eins og í Danmörku og öðrum löndum þurfum við að tryggja aðlögun þeirra sem flytja til landsins og afkomenda þeirra að samfélaginu.

Stjórnvöld gera stundum mistök, hagsveiflur koma og fara. En stór mistök á þessu sviði verða aldrei lagfærð.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. nóvember, 2022.