Gjaldskráhækkanir upp á hundruði milljóna

Á borgarstjórnarfundi þann 1. desember var fyrri umræða fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021. Í kynningu sem borgarráð fékk fyrir fundinn var ég slegin yfir öllum þeim gjaldskrárhækkunum sem borgarstjóri og meirihlutinn stendur fyrir sem lenda á heimilinum í Reykjavík. Nefni ég hér sem dæmi að nettó hækkun hjá Sorpu er 24%. Heimilisúrgangur hækkar um 40%. Þetta er alveg sama uppskrift og notuð var á Reykvíkinga þegar Orkuveita Reykjavíkur fór á hausinn 2008. Skuldunum var velt yfir á heimilin – gjaldskrá var hækkuð upp úr öllu valdi með loforði um að gjaldskráin yrði lækkuð um leið og Orkuveitan væri komin fyrir vind. Eins og heimilin í Reykjavík hafi nú ekki átt nóg með sig eftir bankahrunið og þurfa svo ofan í kaupið að taka við gjaldskráhækkunum líka. Ekkert hefur borið á lækkunum á gjaldskrám að undanteknu vatnsgjaldinu en lækkunin er tilkomin vegna úrskurðar sveitastjórnarráðuneytisins í þá veru að Orkuveitan innheimti of hátt gjald samkvæmt lögum. Frumkvæðið kom ekki frá Orkuveitunni. Núna er Sorpa á hausnum vegna gríðarlegrar framúrkeyrslu GAJA-sorphreinsistöðvarinnar og þá á að endurtaka leikinn. Velta gjaldskrárhækkunum upp á 200 milljónir yfir á heimilin á næsta ári og til framtíðar árlega. Auðvitað bitnar þessi ákvörðun verst á þeim sem standa höllustum fæti í borginni sem hefur á tillidögum „félagslegar áherslur“.

Af þessu tilefni lagði ég fram eftirfarandi tillögu á fundi borgarstjórnar þann 1. desember: Borgarstjórn samþykkir að fresta öllum gjaldskrárhækkunum fyrir árið 2021 til vinnu við fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 hvort sem um er að ræða í A-hluta eða í B-hluta fyrirtækjum. Skal frestuninni á gjaldskrárhækkunum mætt með  sparnaði í rekstri á árinu 2021. Bæði er um að ræða verðlagshækkanir samkvæmt vísitölu neysluverðs og einnig hækkanir umfram verðlagshækkanir. Greinargerð: Mikill vandi steðjar nú að íbúum Reykjavíkur vegna slæmrar fjárhagsstöðu borgarinnar. Nú hefur komið í ljós að Reykjavíkurborg er á engan hátt í stakk búin til þess að mæta því efnahagsáfalli sem  stendur yfir. Frá árinu 2013 hefur Reykjavíkurborg safnað gríðarlegum skuldum en samt verið með tekjuliði sína í lögbundnu hámarki á nánast öllum sviðum. Á sama tíma hóf ríkið að greiða niður skuldir í miklum mæli og var því fjárhagslega undirbúið fyrir áfallið. Samkomulag var gert milli ríkissins og sveitarfélaganna að halda aftur af gjaldskrárhækkunum á meðan það versta myndi ganga yfir. Það samkomulag hefur Reykjavíkurborg brotið með framlagningu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021. Faxaflóahafnir sýna gott fordæmi á þessari leið með því að hækka ekki gjaldskrár en mæta þess í stað verðlagshækkunum með sparnaði í rekstri. Þessi tillaga var felld af meirihlutanum. Þar með sýndi borgarstjóri og meirihlutinn sitt rétta andlit. Enginn áhugi er til staðar að fleyta okkur saman yfir þessa tímabundnu erfiðleika sem nú steðja að. 

Ég óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á árinu 2021 sem ég trúi að verði íslensku þjóðinni hagfelldara en árið sem senn kveður.

 

Höfundur:  Vigdís Haukdsóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins

Greinin birtist í Grafarvogs- og Grafarholtsblaðinu þann 9. desember, 2020