Hver er skýringin nú?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, beindi í dag fyrirspurn til Fjármála- og efnahagsráðherra varðandi langa biðlista eftir liðskiptaaðgerðum og hver skýringin sé á því að fólk sé sent til útlanda í slíkar aðgerðir sem er þrisvar sinnum dýrara en að framkvæma aðgerðirnar hér heima.  "Hver er skýringin nú? Hvers vegna getur Landspítalinn ekki unnið upp þessa biðlista? Er ríkisstjórnin ekki reiðubúin til að semja um að kaupa þessa þjónustu sem er til staðar og er í boði hér á Íslandi?  Í rauninni virðist einfaldlega vera afturför, áframhaldandi afturför, í samskiptum ríkisstjórnarinnar, ríkisvaldsins, við þá sem eru sjálfstætt starfandi og þjónusta ríkið á sviði heilbrigðismála."

Hér má lesa fyrirspurn Sigmundar Davíðs í heild sinni:

"Í nóvember 2019 spurði hæstvirtur þingmaður Þorsteinn Sæmundsson ráðherra út í þá miklu biðlista sem þá þegar höfðu safnast upp eftir aðgerðum, ekki hvað síst liðskiptaaðgerðum. Þá var alllengi búið að senda fólk til útlanda í slíkar aðgerðir þrátt fyrir að það væri oft jafnvel þrisvar sinnum dýrara en að framkvæma aðgerðirnar hér heima. Tilefni fyrirspurnar þingmanns í þetta skiptið var viðtal sem hafði birst við hæstvirtan fjármálaráðherra í nóvember 2019 þar sem hann lýsti áhyggjum af þessu ástandi en að þær skýringar sem gefnar hefðu verið væru þær að óþarfi væri að semja við þriðja aðila vegna þess að Landspítalinn gæti framkvæmd þessar aðgerðir. Vandinn var bara sá að hann gat það ekki vegna fráflæðisvanda. Eins og hæstvirtur ráðherra sagði þá er það ein skýring en ekki skýring sem getur haldið til langs tíma, ekki skýring sem heldur ár eftir ár, eins og hæstvirtur ráðherra orðaði það.

Því spyr ég hæstvirtan ráðherra: Hver er skýringin nú? Hvers vegna getur Landspítalinn ekki unnið upp þessa biðlista? Er ríkisstjórnin ekki reiðubúin til að semja um að kaupa þessa þjónustu sem er til staðar og er í boði hér á Íslandi? Í rauninni virðist einfaldlega vera afturför, áframhaldandi afturför, í samskiptum ríkisstjórnarinnar, ríkisvaldsins, við þá sem eru sjálfstætt starfandi og þjónusta ríkið á sviði heilbrigðismála. Eins og hæstvirtur ráðherra nefndi: Er ekki skynsamlegra að hætta að borga fyrir þessar ferðir til útlanda og nota peninginn þess í stað hér heima? Hvers vegna hefur ekkert gerst í þessum málum, hæstvirtur ráðherra?"

Efnahags- og fjármálaráðherra svaraði að hann gæti ekki svarað því hvers vegna staðan sé eins og Sigmundur Davíð lýsir og að hann þurfi að kynna mér það betur til að svara fyrirspurninni. "Ég geri ráð fyrir að heilbrigðisráðherra geti verið til svara um það. En mín sýn hefur ávallt verið skýr: Við eigum alls ekki að senda fólk úr landi með þreföldum kostnaði til að fara í aðgerðir sem við erum sammála um að fólk eigi rétt á að fá gerðar á Íslandi." 

Sigmundur Davíð sagðist geta verið sammála greiningu ráðherra og eins væri hann sammála mörgum góðum fullyrðingum ráðherra í fyrrnefndu viðtali.  Ennfremur sagði Sigmundur:

"En þetta viðtal, þar sem hæstvirtur ráðherra hljómar mjög eins og hann gerir nú, var tekið í nóvember 2019. Þá lagði ráðherrann áherslu á að þetta væri ekki ástand sem hægt væri að una við, sætta sig við ár eftir ár. Hvers vegna verður ekki breyting á? Hvers vegna er, að því er virðist, áframhaldandi fjandskapur gagnvart þeim sem eru sjálfstætt starfandi í heilbrigðisþjónustu og þjónusta almenning á kostnað ríkisins? Er þetta ekki einfaldlega afleiðing af því að a.m.k. hluti ríkisstjórnarinnar sættir sig ekki við að kaupa þjónustu af sjálfstætt starfandi stofnunum á heilbrigðissviði á Íslandi og vill þá frekar eyða meiri peningum í að kaupa slíka þjónustu af sams konar stofnunum erlendis?"

Upptöku úr þingsal má sjá hér