Leyndarhyggja og laumuspil í Lindarhvoli – Hver stýrir störfum Alþingis?

Nýlokið er í héraðsdómi vitnaleiðslum og málflutningi í máli Frigusar II gegn Lindarhvoli og íslenska ríkinu um sölu á hlut í fyrirtækinu Klakka. Greinarhöfundur sat undir öllum vitnaleiðslum í héraðsdómi og var það allmikil upplifun. Í mjög stuttu máli afhjúpuðu vitnaleiðslurnar mestu vanhæfni sem ég hef orðið vitni að. Stjórnarmenn Lindarhvols voru illa haldnir af minnisleysi. Eini stjórnarmaðurinn sem eftir situr kvaðst hafa verið varamaður á árunum 2016-18 og því ekki komið að neinum ákvörðunum en hún sat alla stjórnarfundi. Að öðru leyti mundi hún ekkert sem á daga hennar hafði drifið sem stjórnarmanns. Hún kannaðist þó við að hafa reynt að koma í veg fyrir að Lindarhvoll afhenti umbeðnar upplýsingar nema til kæmi úrskurður Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Engar haldbærar skýringar voru á upplýsingatregðunni.

Í réttinum kom fram að stjórn Lindarhvols kom vart nálægt sölunni á Klakkahlutnum. Kynning sölunnar var í skötulíki og söluferlið „sjoppulegt“ að sögn vitnis. Vitni lýsti því svo að engu væri líkara en menn hefðu ekki kært sig um að fá tilboð. Rúmlega tuttugu aðilar lýstu áhuga en flestir gáfust upp á að reyna að nálgast upplýsingar. Tilboð sem fram komu í Klakkaeignina (þrjú) voru send beint á netfang lögmannsstofunnar Íslaga. Einnig var gefið upp símanúmer á sömu lögmannsstofu sem aldrei var svarað í. Lögmaðurinn sem um ræðir kvaðst hafa verið „lögfræðilegur ráðunautur“ stjórnar Lindarhvols. Hann var samt allt í öllu þegar salan á Klakkaeigninni var til umfjöllunar. Auk þess var hann í stjórn Klakka! Tvö af tilboðunum þrem voru í raun frá sama erlenda vogunarsjóðnum. Tilboðsgjafar voru í báðum tilvikum starfsmenn Klakka og bjuggu yfir upplýsingum sem aðrir höfðu ekki aðgang að. Töluvert vantaði því upp á að tilboðsgjafar væru jafnt settir. Fyrirvarar um samþykki FME voru í tveim tilboðunum en það þriðja fyrirvaralaust. Loks var hægt að ganga að „hæsta“ tilboði eftir fimm mánuði þegar samþykki FME lá fyrir. Þá hafði tilboðið rýrnað um rúmar 80 milljónir að mati setts ríkisendurskoðanda. Verðmat á Klakkaeigninni sem hann fékk færan endurskoðanda til að vinna leiddi í ljós að hið selda var fimm hundruð millljónum meira virði en söluverði nam.

Þegar litið er til starfsemi Lindarhvols verður að hafa í huga að þar fór fram mesta sala á ríkiseignum nokkru sinni. Það reið því á miklu að vandað væri til verka og vinnubrögð hafin yfir vafa.

Eftir að hafa setið undir vitnaleiðslum í tvo daga fer ekki hjá því að maður hugsi til þess hvernig aðrar eignir voru seldar á vegum Lindarhvols fyrst svo tókst til með eignarhluta ríkisins í Klakka. Það virðist ljóst að settur ríkisendurskoðandi hafi gert fleiri athugasemdir við starfsemi Lindarhvols sem ekki munu koma fram nema greinargerð hans verði birt.

Vitnisburður setts ríkisendurskoðanda í héraðsdómi var áfellisdómur yfir starfi stjórnar og „ráðgjafa“ Lindarhvols og taldi hann m.a. valdmörk ógreinileg. Eftir vitnaleiðslur er ljósara en nokkru sinni fyrr að birta verður greinargerðina ef hægt á að vera fyrir Alþingi að afgreiða endanlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um málið frá 2020. Það verður að segjast að kaflinn í þeirri skýrslu um sölu á Klakkaeigninni eldist afar illa.

Eftir vitnaleiðslur verður að taka fram að málið hefur verið dómtekið og mun dómur að öllum líkindum liggja fyrir innan nokkurra vikna. Styðji dómurinn við söluferlið verður varla fært að selja fleiri ríkiseignir. Verum minnug þess að tvenn söluferli Íslandsbanka voru síður en svo án ágalla þó selt væri undir listrænum áhrifum.

Við stofnun Lindarhvols var gerður samningur milli fjármálaráðuneytis og félagsins um starfshætti. Samningnum fylgdu reglur um umsýslu fullnustu og sölu eigna ásamt siðareglum.

Í kafla II segir í grein 2.3.: „Við umsýslu, fullnustu og sölu eigna skal leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar.“ Einnig segir að reglur séu settar til að „stuðla að því að auka trúverðugleika og óhlutdrægni við meðferð og afgreiðslu mála félagsins“ í gr. 2.3: „Félagið byggir starfsemi sína á að taka allar ákvarðanir á faglegum forsendum og mun tryggja fullan rökstuðning þeirra gagnvart öllum hlutaðeigandi aðilum, þ.e. viðskiptavinum, eiganda, starfsmönnum og samfélaginu í heild.“ Að auki segir í 6. kafla gr. 6.1: „Við komum fram við viðskiptavini og samstarfsmenn af virðingu og sýnum sanngirni og gætum jafnræðis í störfum okkar.“ Í gr. 6.2: „Við sinnum störfum okkar og samskiptum við viðskiptamenn og aðra hagsmunaaðila þannig að það sé öðrum til fyrirmyndar og eftirbreytni.“

Eftir vitnisburð stjórnarmanna fyrir héraðsdómi er hægt að fullyrða að settar reglur voru að engu hafðar.

Forseti Alþingis kemur enn í veg fyrir að greinargerðin verði birt þrátt fyrir samþykkt forsætisnefndar þar um og niðurstöður tveggja lögfræðiálita. Ástæðan er sögð andstaða síðasta stjórnarmannsins og ríkisendurskoðanda.

Hver stýrir þá störfum Alþingis?

Þorsteinn Sæmundsson.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar, 2023.