Miðflokkurinn gerir það sem hann segist ætla að gera

Þegar nálgast fer kosningar og frambjóðendur stjórnmálaflokkanna bera loforð sín á borð fyrir kjósendur heyrist oft að ekkert sé að marka gefin orð, flokkarnir séu allir eins, aldrei sé staðið við neitt, sannfæringin týnist fljótt og áfram sigli þjóðarskútan undir raunverulegri stjórn embættismannakerfisins.

Þetta á því miður við um allt of marga stjórnmálaflokka eins og sagan hefur sýnt okkur. En á sama tíma hefur sagan sýnt okkur að Miðflokkurinn sker sig hressilega úr hvað þetta varðar. Formaður Miðflokksins og aðrir forystumenn flokksins hafa um árabil sannað að þeim er treystandi til að fylgja eftir því sem lofað er og klára það með góðum árangri fyrir íslenska þjóð.

Þótt Miðflokkurinn hafi ekki verið stofnaður fyrr en 2017 hafa forystumenn flokksins barist fyrir þýðingarmiklum breytingum, staðið vörð gegn ásókn að íslensku samfélagi og varið réttindi einstaklinganna þegar flestir voru á öndverðum meiði. Árangurinn liggur fyrir og við höldum uppteknum hætti en lítum aðeins yfir söguna.

Icesave-slagurinn var ekki einfaldur. Það var formaður Miðflokksins, fyrst undir formerkjum Indefence og síðar sem formaður annars flokks, sem stóð vörnina fyrir íslenskt samfélag þegar elítan vildi að almenningur axlaði skuldir einkafyrirtækis. Íslenskur almenningur þurfti ekki að borga.

Leiðréttingin fyrir íslensk heimili var ekki einfalt verkefni og átti marga úrtölumenn. Formaður Miðflokksins kynnti það og kláraði og almenningur uppskar lægri höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána ásamt því að geta nýtt sér eignalífeyrissparnað sinn skattfrjálst.

Slagurinn við kröfuhafa föllnu bankanna var erfiður en formaður Miðflokksins fór fyrir þeim slag og uppskar ríkulega fyrir íslenska þjóð. Niðurstaðan er nær þúsund milljörðum fyrir ríkissjóð en þeim þrjú hundruð milljörðum sem úrtölumönnum þótti fráleitt að ná í, íslenskum almenningi til heilla.

Baráttan gegn þriðja orkupakkanum var ekki auðsótt en þingflokkur Miðflokksins hörfaði ekki og stóð vaktina fyrir fullveldi Íslands. Það mun Miðflokkurinn áfram gera, alltaf.

Slagurinn um hálendisþjóðgarð lifir enn góðu lífi, þökk sé ríkisstjórnarflokkunum, en það var Miðflokkurinn sem kom í veg fyrir að hann næði fram að ganga fyrir þinglok 2021 og við erum hvergi nærri hætt.

Þá stendur enn slagurinn fyrir greiðari samgöngum á höfuðborgarsvæðinu og um land allt. Miðflokkurinn berst áfram gegn borgarlínu og berst fyrir lagningu Sundabrautar.

Það má treysta því að Miðflokkurinn verður aldrei lítill í sér þó að aðrir hafi hátt. Miðflokkurinn stendur við sannfæringu sína og stendur með íslenskum almenningi. Við tökum slaginn þegar þörf er á.

Við gerum það sem við segjumst ætla að gera.

 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og oddviti í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.

bergthorola@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 17. september, 2021