Völd án ábyrgðar

 

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er bent á að það sé varasöm þróun að embættismenn hafa fært sig upp á skaftið, en án aukinnar ábyrgðar. 

"Í borgarstjórn er sérkennilegt ástand og hefur verið um allnokkurt skeið. Í fyrra kom það upp að borgarritari hóf að skamma ónafngreinda borgarfulltrúa fyrir framkomu þeirra og brugðust fulltrúar minnihlutans illa við enda augljóst að skammirnar voru ætlaðar þeim. Borgarritari hafði bersýnilega stigið út úr hlutverki hins hlutlausa embættismanns og inn á völl stjórnmálanna.

Á föstudag gerðist það að skrifstofustjóri borgarstjóra birti færslu á samfélagsmiðli þar sem veist var að einum tilteknum borgarfulltrúa. Færslan átti að heita svar við árásum borgarfulltrúans en í henni er lítið um efnisleg svör og meira um hnútukast sem fólk býst frekar við þegar pólitískir andstæðingar takast á. Það er ekki endilega uppbyggilegt við þær aðstæður, en þó oft skiljanlegt. Embættismenn ættu að halda sig frá slíkum orðahnippingum.

Þó að þessi framganga embættismanna virðist meira áberandi hjá Reykjavíkurborg en annars staðar hafa einstaka dæmi komið upp víðar, svo sem þegar ráðuneytisstjóri hringdi í alþingismann fyrir fáeinum árum og að sögn þingmannsins hótaði honum. 

Umhugsunarvert er hvers vegna tilvik af þessu tagi hafa verið að koma upp á síðustu árum en ef til vill er ástæðan sú að smám saman hefur verið grafið undan áhrifum og völdum stjórnmálamanna en áhrif og völd embættismanna aukin að sama skapi. Ráðherrar hafa til að mynda gefið frá sér, í raun að minnsta kosti, töluverðan hluta þeirra ákvarðana sem áður þótti sjálfsagt að þeir tækju. Ábyrgðin situr þó iðulega eftir hjá þeim en ákvörðunin hjá embættismönnunum. Þetta skapar óeðlilegar aðstæður, skilin á milli ókjörinna embættismanna og kjörinna fulltrúa almennings verða óskýrari en áður og ein afleiðingin kann að vera sú að embættismenn færi sig upp á skaftið, meðal annars með því að takast opinberlega á við kjörna fulltrúa.

Þetta er sérstaklega eftirtektarvert þegar haft er í huga að helsta röksemdin fyrir þeirri þróun að færa völd frá stjórnmálamönnum hefur verið sú að ákvarðanir verði faglegri og stjórnsýslan sömuleiðis. En það er ekkert faglegt eða vandað við það að embættismenn munnhöggvist við kjörna fulltrúa eða að embættismenn taki í raun ákvarðanir sem aðrir beri ábyrgð á. Kominn er tími til að kjörnir fulltrúar ræði þessa þróun og leggi í það minnsta mat á hvort ekki hefur verið gengið of langt í þá átt að færa völdin frá þeim til andlitslausra og ábyrgðarlausra embættismanna. Verði niðurstaðan sú að æskilegt sé að völdin séu annars staðar en hjá kjörnum fulltrúum, þrátt fyrir að við búum í lýðræðisríki, þá er í það minnsta augljóst að ábyrgðin hlýtur að þurfa að fylgja með." 

Leiðari Morgunblaðsins þann 17. ágúst, 2020