Orkulaus ríkisstjórn

Lánleysi ríkisstjórnarinnar í orkumálum virðast engin takmörk sett. Landið er í bráðri þörf fyrir meiri raforku á öllum sviðum. Aðeins sá til lands í þeim efnum á dögunum þegar loks virtist hægt að virkja í Þjórsá en þá féll fallöxi Evrópusambandsins hratt og örugglega og sneiddi niður öll slík plön. Eftir sitjum við jafn orkulaus og áður og ráðherra orkumála alveg ofboðslega hissa á þessu öllu saman.

En er það tilviljun að mál skuli þróast með þessum hætti? Nei, nefnilega ekki.

Það er hnífur sem stendur í kúnni og hann kallast vatnatilskipun Evrópusambandsins. Hún var innleidd í íslensk lög árið 2008 og rammatilskipun Evrópusambandsins um verndun vatns með nýjum lögum var innleidd árið 2011. Nú tólf árum síðar nær hún í skottið á okkur. Og bítur fast.

Það var á grundvelli þessa regluverks ESB sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi veitingu virkjanaleyfis fyrir Hvammsvirkjun, virkjun í Þjórsá. Orkustofnun hafði veitt téð virkjanaleyfi fyrir tæpu ári og beðið hefur verið eftir framkvæmdaleyfi frá aðliggjandi sveitarfélögum til að hægt væri að hefja framkvæmdir við virkjunina.

Degi eftir að sveitarfélagið veitti framkvæmdaleyfið úrskurðaði úrskurðarnefndin og þar við situr. Engin virkjun – í boði ESB.

Hið áhugaverða er að það voru allir leikendur á þessu sviði alveg ofboðslega hissa á þessu öllu saman. Hvernig gat þetta bara gerst? Jú, því það var innleitt hér regluverk frá ESB sem stendur okkur svo fyrir þrifum. Gæti verið að það sé skynsamlegt að gjalda varhug við regluverki ESB sem er innleitt hér á slíku færibandi að mann hreinlega sundlar og verkjar? Miðflokkurinn telur svo vera og hefur því til dæmis lagst gegn innleiðingu bókunar 35 sem utanríkisráðherrann reynir að koma í gegn á þinginu – og snýr að því að regluverk ESB verði rétthærra íslenskum lögum þegar það hefur verið innleitt hér.

Steininn tók þó úr í viðtali við orkumálastjóra um þennan viðsnúning er varðar virkjanaleyfið vegna vatnatilskipunar ESB í kvöldfréttum RÚV þegar hann sagði: „Það er í raun og veru stóra ábendingin í þessu ferli sem við í stjórnsýslunni fögnum. Það er gott að fá slík tilmæli. Þar kom það – hann telur þetta allt tilefni til fögnuðar þegar við blasir orkuskortur í okkar gjöfula landi. Ef orðið raunheimarof á einhvern tímann við þá er það líklegast hér.

Verst er þó, fyrir hagsmuni lands og þjóðar, að með núverandi ríkisstjórn er sennilega pólitískur ómöguleiki í því fólginn að færa þessi mál til betri vegar. Ríkisstjórn hinnar köldu handar í orkumálum mun halda fast við sinn keip. Á meðan mun orkuskortur ágerast og óteljandi tækifæri tapast. Þá verður erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hreykja sér af „landi tækifæranna“ í næstu kosningabaráttu.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 17. júní, 2023.