Öxi – Vegagerðin – Stjórnvöld

Hvað er í gangi? Hvers vegna er alltaf höggið lengst frá stjórnstöðvunum? Hver eru áhrif á samfélagið okkar á Austurlandi sem aflar allra mest í íslenska samfélagið pr. mann allra landshluta á Íslandi?

Þetta eru spurningar sem vakna þegar fréttir berast af því að frestað er þegar auglýstum útboðum á vegaframkvæmdum um Öxi. Hönnun vegar um Öxi var lokið fyrir langalöngu síðan og sú hönnun samþykkt. Það er búið að taka Vegagerðina á annan áratug að semja við landeigendur um vegstæðið. Ég spyr, hvers konar vinnubrögð eru þetta?  Er Vegagerðin kannski viljandi að reyna að tefja fyrir verkinu? Sú spurning hlýtur að vakna þegar framgangur mála er á þennan hátt eða er fjarlægðin frá Reykjavík það mikil að þeim finnist þetta engu máli skipta. Um Öxi fóru suma daga í júní 2004 um 400 bílar (upplýsingar frá vegagerðini fengnar 2005). Í dag er þessi umferð allt að tvöfalt meiri þegar mest er og vex hratt þar sem þetta er aðalleið ferðamanna til Héraðs sem koma sunnan að og aðalleið íbúa Djúpavogs og nágrennis í þjónustu Múlaþings.

Stjórnvöldum er vel kunnugt um að tekjuöflun á Austurlandi er sú mesta á Íslandi. Austurland greiðir allar framkvæmdir og þjónustu á Austurlandi með því fjármagni sem aflað er í fjórðungnum (sbr skýrsla HA june 26th 2013 on http://www.irpa.is). Skýrsla Háskólans á Akureyri er miðuð við árið 2011. Afkoma í fjórðungnum hefur stóraukist frá þeim tíma sem þýðir að tillag Austurlands til hýtarinnar á suðvesturhorninu hefur stóraukist. Eru stjórnvöld svo blind á stöðuna og fjármál Íslands að þau gera sér ekki grein fyrir þessu. Vegagerð  á Austurlandi er langt á eftir því sem gerist og gengur á vestur hluta landsins. Flestar einbreiðar brýr og malarvegir.

Stjórnvöld verða að girða sig í brók og leyfa Austurlandi að njóta ávaxtanna af því sem þeir leggja í þjóðarbúið.

Björn Ármann Ólafsson, 4. sæti Miðflokksins í Múlaþingi.