Ríkisstjórn atvinnulífsins?

Ríkisstjórn atvinnulífsins?

Þriðjudagur, 28. maí 2024
 

Á meðan áhrif tak­mark­ana stjórn­valda vegna kór­ónu­veirunn­ar bitu sem mest á fyr­ir­tæki lands­ins höfðu ýms­ir á orði að við rík­is­stjórn­ar­borðið sætu ekki marg­ir sem hefðu á fyrri stig­um haft áhyggj­ur af því að greiða laun um mánaðamót.

Litlu virt­ist skipta hjá stjórn­völd­um hvort ákvörðun um stuðningsaðgerðir kláruðust fyr­ir eða eft­ir mánaðamót, sem gat verið upp á líf og dauða hjá þeim sem ekki gátu nýtt tæki, tól og mannauð til að skapa sér tekj­ur.

En hef­ur skiln­ing­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar á hlut­verki og þörf­um at­vinnu­lífs­ins, sem á sitt und­ir ákvörðunum op­in­berra aðila, auk­ist síðan þá?

Staðan í Grinda­vík er öll­um ljós og hef­ur verið í á sjö­unda mánuð. Eft­ir all­an þenn­an tíma óska eig­end­ur lít­illa og milli­stórra fyr­ir­tækja nú eft­ir fundi með rík­is­stjórn­inni til að fá áheyrn, enda hafa lausn­ir úr verk­færa­k­istu heims­far­ald­urs­ins ekki gert gagn nema að hluta, enda vand­inn eðlisólík­ur. Staðan kall­ar á lausn­ir sem eru klæðskerasniðnar að því ástandi sem þarna er uppi. Fjöl­breytt­ari lausn­ir við að mörgu leyti flókn­ari vanda.

Á sama tíma og fyr­ir­tækja­eig­end­ur í Grinda­vík kalla eft­ir því að fá að hitta rík­is­stjórn­ina bíða stjórn­end­ur fyr­ir­tæk­is sem hef­ur stundað hval­veiðar með góðum ár­angri um langa hríð þess að mat­vælaráðherra gefi út leyfi til starf­sem­inn­ar. Fyr­ir­tækið hef­ur beðið svara síðan í janú­ar.

Auðvitað blas­ir við öll­um að hval­veiðivertíðin þetta árið er fyr­ir bí. Und­ir­bún­ing­ur vertíðar þarf meiri aðdrag­anda en nokkra daga.

Verst er þó að tveim­ur mat­vælaráðherr­um Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs virðist í léttu rúmi liggja að skapa rík­is­sjóði skaðabóta­skyldu og ákvæði stjórn­ar­skrár um at­vinnu­frelsi virðast í huga þeirra meira upp á punt en annað. En er bara við vinstri græna að sak­ast?

Í þessu sam­hengi er rétt að rifja upp orð Jóns Gunn­ars­son­ar, þing­manns Sjálf­stæðis­flokks, sem upp­lýsti í viðtali á Bylgj­unni í liðinni viku að um þessi mál hefði verið rætt þegar Fran­ken­stein var skrúfaður sam­an í þriðja sinn fljót­lega eft­ir páska. Í viðtal­inu upp­lýsti ráðherr­ann fyrr­ver­andi að for­ystu­menn Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks hefðu af­tekið með öllu að hval­veiðum yrði hætt. En hvað svo? Síðan bara gera ráðherr­ar VG það sem þeim sýn­ist, burt­séð frá af­leiðing­un­um, og segj­ast svo bara vera í póli­tík. Orð fyr­ir­svars­manna sam­starfs­flokk­anna hafa enn sem komið er reynst ódýr. Al­veg hræ­bil­l­eg.

Íslenskt at­vinnu­líf á betra skilið en það sem stjórn­völd bjóða því nú um stund­ir, skatta­hækk­an­ir, hækkuð gjöld, enn meira íþyngj­andi eft­ir­lit en áður var, drátt­ur á svör­um, skiln­ings­leysi á aðstæðum og svo mætti áfram telja.

Er ekki komið nóg af fram­göngu nú­ver­andi stjórn­valda í garð fyr­ir­tækja lands­ins? Það eru jú þau á end­an­um sem halda skút­unni á sigl­ingu.

Höf­und­ur er þing­flokks­formaður Miðflokks­ins. bergt­horola@alt­hingi.is