Á meðan áhrif takmarkana stjórnvalda vegna kórónuveirunnar bitu sem mest á fyrirtæki landsins höfðu ýmsir á orði að við ríkisstjórnarborðið sætu ekki margir sem hefðu á fyrri stigum haft áhyggjur af því að greiða laun um mánaðamót.
Litlu virtist skipta hjá stjórnvöldum hvort ákvörðun um stuðningsaðgerðir kláruðust fyrir eða eftir mánaðamót, sem gat verið upp á líf og dauða hjá þeim sem ekki gátu nýtt tæki, tól og mannauð til að skapa sér tekjur.
En hefur skilningur ríkisstjórnarinnar á hlutverki og þörfum atvinnulífsins, sem á sitt undir ákvörðunum opinberra aðila, aukist síðan þá?
Staðan í Grindavík er öllum ljós og hefur verið í á sjöunda mánuð. Eftir allan þennan tíma óska eigendur lítilla og millistórra fyrirtækja nú eftir fundi með ríkisstjórninni til að fá áheyrn, enda hafa lausnir úr verkfærakistu heimsfaraldursins ekki gert gagn nema að hluta, enda vandinn eðlisólíkur. Staðan kallar á lausnir sem eru klæðskerasniðnar að því ástandi sem þarna er uppi. Fjölbreyttari lausnir við að mörgu leyti flóknari vanda.
Á sama tíma og fyrirtækjaeigendur í Grindavík kalla eftir því að fá að hitta ríkisstjórnina bíða stjórnendur fyrirtækis sem hefur stundað hvalveiðar með góðum árangri um langa hríð þess að matvælaráðherra gefi út leyfi til starfseminnar. Fyrirtækið hefur beðið svara síðan í janúar.
Auðvitað blasir við öllum að hvalveiðivertíðin þetta árið er fyrir bí. Undirbúningur vertíðar þarf meiri aðdraganda en nokkra daga.
Verst er þó að tveimur matvælaráðherrum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs virðist í léttu rúmi liggja að skapa ríkissjóði skaðabótaskyldu og ákvæði stjórnarskrár um atvinnufrelsi virðast í huga þeirra meira upp á punt en annað. En er bara við vinstri græna að sakast?
Í þessu samhengi er rétt að rifja upp orð Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, sem upplýsti í viðtali á Bylgjunni í liðinni viku að um þessi mál hefði verið rætt þegar Frankenstein var skrúfaður saman í þriðja sinn fljótlega eftir páska. Í viðtalinu upplýsti ráðherrann fyrrverandi að forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefðu aftekið með öllu að hvalveiðum yrði hætt. En hvað svo? Síðan bara gera ráðherrar VG það sem þeim sýnist, burtséð frá afleiðingunum, og segjast svo bara vera í pólitík. Orð fyrirsvarsmanna samstarfsflokkanna hafa enn sem komið er reynst ódýr. Alveg hræbilleg.
Íslenskt atvinnulíf á betra skilið en það sem stjórnvöld bjóða því nú um stundir, skattahækkanir, hækkuð gjöld, enn meira íþyngjandi eftirlit en áður var, dráttur á svörum, skilningsleysi á aðstæðum og svo mætti áfram telja.
Er ekki komið nóg af framgöngu núverandi stjórnvalda í garð fyrirtækja landsins? Það eru jú þau á endanum sem halda skútunni á siglingu.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is