Ríkisstjórn í kulnun

Ríkisstjórn í kulnun

Föstudagur, 5. janúar 2024
 
Bergþór Ólason

For­menn stjórn­mála­flokka sett­ust sam­an og snæddu kryddsíld á gaml­árs­dag.

Orku­mál­in voru fyrst póli­tískra mála á dag­skrá og ein­hvern veg­inn tókst Jóni Gunn­ars­syni að verða miðdep­ill umræðunn­ar á meðan hann spókaði sig sjálf­ur í Hong Kong. Fékk hann því strax viður­nefnið Jón Kong enda í svipaðri stöðu og ap­inn forðum sem sat lengi fast­ur í búri en gat á end­an­um um frjálst höfuð strokið.

En það sem vakti at­hygli mína í þeirri umræðu var ekki að Jón Kong, sem hafði deg­in­um áður lýst þeirri skoðun sinni í viðtali við Vilj­ann að nauðsyn­legt væri að mynda nýj­an meiri­hluta á Alþingi til að „rjúfa kyrr­stöðu í orku­upp­bygg­ingu“, væri miðdep­ill henn­ar, held­ur voru það viðbrögð for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son hafði fátt um málið að segja og staglaðist þess í stað á því að rík­is­stjórn­in væri með 37 manna meiri­hluta og því skipti upp­hlaup eins þing­manns, í þessu til­viki Jóns Gunn­ars­son­ar, litlu máli.

Skrýtið að formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins skuli gera svo lítið úr al­var­leg­um at­huga­semd­um þess þing­manns og fyrr­ver­andi ráðherra sem mest stjórn­arþing­manna hef­ur látið sig varða umræðu um orku­fram­leiðslu á lög­gjaf­arþing­inu.

Af hverju ætli for­mann­in­um hafi þótt mik­il­vægt að tala niður áhyggj­ur af orku­mál­um sem tröllríða sam­fé­lag­inu um þess­ar mund­ir? Af hverju seg­ir hann orku­mál­in í eðli­leg­um far­vegi, svona í ljósi þess að nú í des­em­ber var lagt fram frum­varp sem kvað á um skömmt­un­ar­stjóra raf­magns? Kannski var ástæðan sú að for­manni Fram­sókn­ar­flokks­ins þykir allt til þess vinn­andi að draga úr spennu­stigi inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar svo hún geti skakklapp­ast áfram um sinn.

Kannski er ástæðan sú sem kom fram í viðtali við þing­flokks­formann Fram­sókn­ar­flokks­ins á mbl.is 2. janú­ar sl., þar sem sagði að eng­in mál orku­málaráðherra hefðu stoppað í rík­is­stjórn.

Ég spurði orku­málaráðherr­ann að ná­kvæm­lega þessu í fyr­ir­spurna­tíma á Alþingi rétt fyr­ir jól, það er hvort ein­hver raf­orku­tengd mál hefðu stoppað í rík­is­stjórn, og fékk eng­in svör. Hann neitaði líka að svara því hvort hann væri til­bú­inn að skoða setn­ingu sér­laga til að koma ákveðnum virkj­ana­kost­um hraðar til fram­kvæmda.

Veit formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins kannski að það er eng­in vigt á bak við al­var­leg orð og yf­ir­lýs­ing­ar nokk­urra þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins? Hann veit vænt­an­lega hvernig ráðherr­ar í rík­is­stjórn haga fram­lagn­ingu mála og orðum sín­um við rík­is­stjórn­ar­borðið.

Eitt er að rík­is­stjórn­in sé orku­laus – annað að hún sé óstarf­hæf – það er þó sýnu verst ef hún er orðin fórn­ar­lamb kuln­un­ar, þar sem ekk­ert geng­ur né rek­ur, ráðherr­ar stara út í tómið og klifa á klisj­un­um í von um að all­ir hætti bara að spá í þetta. En þeim verður ekki káp­an úr því klæðinu, svo al­var­leg er staðan og þessa kyrr­stöðu þarf að rjúfa.