Stóll í stað styrks

Það hefur verið sorglegt að fylgjast með framgöngu ríkisstjórnarflokkanna í kjölfar fordæmalausrar ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra í byrjun síðustu viku. Hún veigraði sér ekki við að taka ákvörðun um stöðvun veiða á langreyðum degi fyrir upphaf vertíðar og traðka þannig á stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum fjölda fólks án viðunandi heimilda í lögum. Hún blikkaði ekki auga og óttaðist í engu viðbrögð samstarfsflokka sinna í ríkisstjórn. Enda ekki eins og þeir hafi látið kné fylgja kviði hingað til í þessu samstarfi.

Matvælaráðherrann óð fram á sviðið og svipti hundruð manns lífsviðurværi sínu með einu pennastriki, án heimildar. Hún réðst á atvinnulífið án þess að upplýsa vini sína í ríkisstjórn fyrr en eftir að ákvörðunin var tekin. Hún tók fyrsta skrefið í því að vega að sjálfbærri og löglegri nýtingu sjávarauðlindarinnar. Þetta réttlætir hún allt með einu efnisminnsta áliti nokkurs fagráðs sem sést hefur – tvær blaðsíður í heild og þar af ein blaðsíða samtals í rökstuðning. Fagráðið átti líka að fara að stjórnsýslulögum við málsmeðferð sína og gerð álitsins en gerði það ekki. Fagráðið fór heldur í engu yfir lagalegan grundvöll fyrir ákvörðun ráðherrans enda var það ekki hlutverk þess. Lagalega óvissan í kringum bann við veiðum á langreyðum sem ráðherrann viðurkenndi sjálfur að væri uppi á fyrri stigum er enn uppi. En vinum Svandísar í ríkisstjórn virðist standa algerlega á sama um það – og um fólkið og fjölskyldur þeirra sem finna pólitískan geðþótta Svandísar á eigin skinni.

Svandís hefur áður talið sína pólitísku hagsmuni trompa lög, reglu og hagsmuni þjóðar. „Ég er í pólitík,“ sagði hún þegar dómur féll í Hæstarétti varðandi ólöglega ákvörðun hennar í stóli umhverfisráðherra. Það sem er öðruvísi nú er að ríkisstjórnin samanstendur af öðrum flokkum og því hefði mátt vænta betri viðbragða.

Formaður Sjálfstæðisflokksins lætur hins vegar ekki ná í sig og þegir þunnu hljóði þegar kemur að ólögmætri aðför matvælaráðherranns að sjálfbærri nýtingu auðlinda. Hann þegir þunnu hljóði og vonar örugglega innst inni að þessi umræða hljóti alveg að fara að klárast – hann þurfi ekki að taka afstöðu, hann þurfi ekki að taka stöðu með fólkinu í landinu gagnvart gerræði vinstri grænna og hann þurfi ekki að standa með atvinnulífinu. Það er af sem áður var þegar Sjálfstæðisflokkurinn var flokkur atvinnulífs og einstaklingsins og barðist fyrir farsæld þjóðar.

Það er oft sagt að límið í ráðherrastólunum sé sterkt – en þegar kemur að Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum er það sterkara en sjálfbær og lögleg nýting auðlinda við Ísland, sterkara en stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi og sterkara en hagsmunir fólksins í landinu. Þá vitum við það.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 27. júní, 2023.