Tafatjón vegna dráttar á Sundabraut

Nýlega staðfestist það sem öllum mátti vera ljóst, nema mögulega samgönguráðherra og borgarstjóra, að Sundabraut væri í sérflokki hvað arðsemi varðar.

Skýrsla verkfræðistofunnar Mannvits og hinnar dönsku COVI, sem birt var 17. desember síðastliðinn, leggur mat á þrjár mismunandi útfærslur Sundabrautar – tvær þar sem brú þverar Kleppsvíkina og eina með jarðgöngum þar undir.

Arðsemin til næstu 30 ára er á bilinu 185-235 milljarðar, eftir því hvaða leið verður fyrir valinu. Mestur ábati felst í minni akstri, útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda.

Til samanburðar er rétt að nefna að gert er ráð fyrir 25,9 milljarða arðsemi fyrsta áfanga Borgarlínu, samkvæmt skýrslu sömu aðila sem birt var í júní 2020, þar sem notast var við sömu aðferðafræði. Munurinn er 7-9-faldur.

Á meðan arðsemi Sundabrautar er jafn mikil fyrir íslenskt samfélag og raunin er, þá er óboðlegt að framkvæmdir við hana dragist til ársins 2031, og það er ártalið ef allt gengur eins og í sögu. Því miður eru litlar líkur á að það verði raunin miðað við framgöngu borgarstjóra undanfarin kjörtímabili og vegna linkindar samgönguráðherra í samskiptum sínum við hann

Hvert ár sem tefst að koma Sundabraut í notkun felur í sér gríðarlegan kostnað fyrir samfélagið, bæði fjárhagslegan og umhverfislegan. Fyrir áhugafólk um útblástur bílaflotans, þá er áætlað að heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu geti minnkað um 150 þúsund kílómetra á sólarhring með tilkomu Sundabrautar

Í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni síðastliðinn laugardag ræddu saman um Sundabraut sá sem hér skrifar og Sabine Leskopf, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Þar þótti mér þrennt áhugavert koma fram hjá viðmælanda mínum.

Í fyrsta lagi sagði borgarfulltrúinn Samfylkinguna tala fyrir þeim kosti sem útilokar hjólandi og gangandi umferð frá því að nýta sér þverun Kleppsvíkur. Það er gott að það liggi fyrir.

Í öðru lagi hélt borgarfulltrúinn því fram að Reykjavíkurborg hefði ekki þvælst fyrir lagningu Sundabrautar. Það er efni í annan pistil að fara yfir þá sögu.

Í þriðja lagi hélt borgarfulltrúinn því fram að raunverulega hefði Sundabrautin verið stopp vegna þess að „Símapeningarnir“ hefðu tapast í bankahruninu. Þetta er furðulegur fyrirsláttur, enda væri þá ekki verið að vandræðast með viðbyggingu Landspítalans við Hringbraut hefði þessi saga einhverja tengingu við raunheima, enda hluti svokallaðra „Símapeninga“ eyrnamerktur því verkefni á sínum tíma. Raunin er sú að fjármögnun Sundabrautar verður aldrei vandamál, skipulagsmálin hjá Reykjavíkurborg eru vandamálið.

Allar mögulegar útfærslur Sundabrautar eru hagfræðilega góðar, við þurfum bara að komast af stað.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 8. febrúar, 2022.