Þvælst fyrir Sundabraut

Þvælst fyrir Sundabraut

 Bergþór Ólason
 

Vega­gerðin kynnti fyr­ir­hugaða lagn­ingu Sunda­braut­ar á fund­um í liðinni viku. Ætl­un­in er að braut­in geti tekið við um­ferð árið 2031. Jæja, þá hef­ur enn ann­ar tjald­hæll­inn verið rek­inn niður í þess­ari vinnu. Það er til bóta.

Fram til þessa hafa all­ir stein­ar sem menn hafa fundið verið lagðir í götu þessa verk­efn­is. Landsvæðið und­an heppi­leg­ustu veg­línu Sunda­braut­ar var selt með hraði til verk­taka fyr­ir íbúðabyggð svo sú leið varð ófær. Byggð hef­ur verið þrengt upp að áætlaðri veg­línu í Gufu­nes­inu, stæðileg­ustu „bráðabirgða“-hús­um hef­ur verið komið fyr­ir í veg­stæðinu og svo mætti lengi telja.

Það er því ekki skrýtið að maður stoppi við og hugsi – hvaða steinn ætli verði tek­inn næst og lagður í götu Sunda­braut­ar? Hvernig verður næst komið í veg fyr­ir þessa arðsöm­ustu sam­göngu­bót lands­ins?

Ég sé þegar glitta í einn. Nú er það orðið svo að til að leggja megi Sunda­braut­ina þá verði fyrst að leggja Sæ­braut­ina í stokk. Það er verk­efni sem kost­ar æv­in­týra­lega mikið og bæt­ir engu við hvað um­ferðarrýmd varðar, það verða áfram tvær ak­rein­ar í hvora átt á Sæ­braut­inni.

Það hef­ur alla tíð verið lyk­ilsjón­ar­mið full­trúa Reykja­vík­ur­borg­ar að tengja verk­efn­in tvö ekki sam­an, þ.e. lagn­ingu Sunda­braut­ar og sam­göngusátt­mál­ann, með Sæ­braut­ar­stokki eða ekki.

Sunda­braut­in hef­ur, til þessa, verið utan við sam­göngusátt­mál­ann. En nú er það skyndi­lega svo að hinn rán­dýri Sæ­braut­ar­stokk­ur er orðinn for­senda Sunda­braut­ar, svo Sunda­braut geti tengst við Sæ­braut vest­an Klepps­vík­ur.

Það er og verður vand­séð hvernig þessi for­senda kom til, nema þá helst til að þeir sem mestu ráða í Reykja­vík geti enn tafið verk­efnið og lagt ann­an stein í götu þess. Borg­ar­stjór­inn vill ekki Sunda­braut­ina – það er orðið dag­ljóst.

Til gam­ans má geta þess að í skýrslu verk­efna­hóps á veg­um sam­gönguráðherra sem skilaði skýrslu sinni 2019 og lagði mat á kosti Sunda­brú­ar ann­ars veg­ar og Sunda­ganga hins veg­ar, hvað þver­un Klepps­vík­ur varðar, kom hvergi fram að lagn­ing Sæ­braut­ar í stokk væri for­senda Sunda­braut­ar.

Því var svo rang­lega haldið fram í sam­göngusátt­mál­an­um að það hefði verið niðurstaðan að ein for­senda Sunda­braut­ar væri Sæ­braut­ar­stokk­ur­inn.

Niðurstaðan er og verður að það er eng­in nauðsyn­leg teng­ing á milli verk­efn­anna tveggja, Sunda­braut­ar og Sæ­braut­ar­stokks. Fyr­ir utan hið aug­ljósa að það væri þægi­legt að geta gert allt strax, en raun­heim­ar leyfa það ekki alltaf.

Þeir sem raun­veru­lega vilja tryggja að Sunda­braut verði lögð skulu því gæta sín á þess­um leik borg­ar­stjóra og innviðaráðherra. Sunda­braut­in á að ganga fyr­ir þegar kem­ur að sam­göngu­bót­um.

Höf­und­ur er þing­flokks­formaður Miðflokks­ins. bergt­horola@alt­hingi.is