Til­rauna­dýr Seðla­bankans

Seðlabankastjóri hefur líkt 14 stýrivaxtahækkunum bankans við n.k. tilraun. Í hartnær tvö ár hef ég ásamt tugþúsundum annarra Íslendinga verið í óumbeðnu ólaunuðu aukastarfi sem tilraunadýr seðlabankastjórans og peningastefnunefndar. Á þeim tíma sem liðinn er af tilrauninni hafa afborganir af lánum heimilisins hækkað svo um munar og er greinarhöfundur þó skuldnettur. Nú er það svo með tilraunir að beri þær ekki árangur leita menn gjarnan annarra lausna. Það gerir ekki íslenski Seðlabankinn (SÍ) og peningastefnunefnd. Ekkert er gert til að hafa hemil á bönkum s.s. með útlánakvóta heldur er hamast á almenningi og smáum fyrirtækjum sem eru útsettust fyrir tilraunastarfseminni. Tilraunin skal halda áfram þó árangur sé lítill sem enginn. Þó ein verðbólgumæling hafi bent til lækkunar er hún frá þeim mánuði sem útsölur eru hvað útbreiddastar. Langtímaverðbólguhorfur eru dekkri ekki síst vegna vaxtahækkana SÍ. Hugur minn er hjá þeim eru verulega skuldsett og mega illa við áföllum

Allmargir hafa breytt lánum sínum úr óverðtryggðum í verðtryggð sem reyndar dregur mjög úr áhrifum stýrivaxtahækkana. Seðlabankastjóri og peningastefnunefnd eru þannig að skjóta sjálf sig í fætur. Við nýjustu vaxtaákvörðun var rætt um auknar verðbólguvæntingar. Jú, undirritaður gengst við því að vænta meiri verðbólgu nú en fyrr eftir kynnta vaxtahækkun. Þessi ráðstöfun SÍ slær ekki á þær væntingar nema síður sé. Seðlabankinn er eins og áður hefur verið lýst líkt og hundur sem eltir skottið á sjálfum sér. Þær vaxtahækkanir sem þegar hafa komið fram hafa flestar verið sem olía á eld og eru bein tengsl milli þeirra og verðhækkana. Verðhækkanir vegna ytri aðstæðna eins og stríðsátökum eru að mestu komnar fram og sumar hafa gengið til baka þó þess sjáist lítil merki hér í fákeppnislandinu. Viðskiptaráðherra virðist hafa vaknað af værum blundi og komist að því hvaða málefni tilheyra ráðuneyti hennar og er það löngu tímabært. Alvarlegast er þó að með síendurteknum stýrivaxtahækkunum sem munu hafa áhrif nokkur misseri fram í tímann er einkum hert að heimilum og smáum fyrirtækjum.

Áhrif þegar framkominna vaxtahækkana leyna sér ekki á húsnæðismarkaði. Vaxtahækkanir hækka byggingakostnað sem aftur eykur verðbólgu vegna áhrifa húsnæðisliðar í vísitölugrunni. Skortur á framboði íbúða veldur einnig því að fasteignaverð hækkar þvert á spár SÍ. Þær íbúðir sem nú eru í smíðum á Höfuðborgarsvæðinu eru hvorttveggja of fáar og of dýrar til þess að vinna á skortinum. Engar íbúðir eru á markaði þar sem nýst gætu fyrstu kaupendum og tekjulágum. Í skýringum SÍ á vaxtahækkunarfundinum um daginn kom fram að bankinn telur atvinnuleysi hér á landi of lítið. Einnig kom fram að núverandi hagvöxtur truflar seðlabankamenn og hamast þeir við að reyna að minnka hann sem mest þeir geta. Það mátti gæta sérstakrar ánægju í framlagi aðalhagfræðings SÍ á síðasta kynningarfundi vegna kólnunar á húsnæðismarkaði. Seðlabankinn er greinilega að stuðla að kreppuástandi á Íslandi með tilraunum sínum. Á sama tíma og hernaður SÍ gegn almenningi og smærri fyrirtækjum stendur er ekki hróflað við fjármálakerfinu með nokkrum hætti. Skilaboð seðlabankastjóra eru að fólk ,,ræði við bankann sinn.” Á sama tíma hefur fjármálaráðherra gefið skýrt til kynna að seðlabankastjóri rói ekki í sömu átt og ríkisstjórnin. Augljós trúnaðarbrestur er milli ráðherrans og seðlabankastjóra. Allt framansagt vekur ekki bjartsýni heldur eykur óvissu og veldur kvíða hjá almenningi sem enn er brenndur eftir síðustu eignaupptöku í kjölfar fjármálahrunsins. Lítil von er til þess að verðbólga lækki hér á næstunni enda lauk fundinum með hefðbundinni kveðju Seðlabankastjóra: ,,Við gætum þurft að hækka vexti meira.”

Tilrauninni er sem sagt hvergi nærri lokið.

Höfundur situr í stjórn Miðflokksins.