Vill Ísland selja réttinn til að segja ósatt?

Íslensk orkufyrirtæki hafa um árabil staðið í sölu svokallaðra aflátsbréfa vegna grænnar raforku. Það þýðir einfaldlega að mengandi fyrirtæki erlendis sem framleiða ýmislegt með mjög svo ógrænni orku kaupa sér vottorð frá Íslandi sem segir að þau hafi samt framleitt vöruna úr grænni orku. Sem sagt: erlendu fyrirtækin kaupa sig frá sannleikanum. Neytendur sem vilja stuðla að grænni orkunotkun eiga því engan möguleika á að „kjósa með fótunum“ og velja vörur sem raunverulega voru framleiddar með grænni orku heldur eru þeir blekktir með stimpli um grænan uppruna á vöru sem á sér svo enga stoð í raunveruleikanum.

Á sama tíma er með þessu verið að draga úr hvatanum fyrir fyrirtæki að hefja starfsemi og framleiðslu á Íslandi og notast raunverulega við grænu orkuna sem við höfum yfir að búa. Þau hola sér frekar niður í mengandi löndum og kaupa sig svo frá sannleikanum.

Íslensk fyrirtæki standa svo frammi fyrir þeim raunveruleika að geta ekki sagt að sín vara hafi verið framleidd með grænni orku og stimplað hana með viðeigandi hætti til að upplýsa neytendur því búið er að selja réttinn úr landi. Og það má ekki tvítelja „grænu orkuna“.

Sölumenn aflátsbréfanna (Landsvirkjun og aðrir íslenskir orkuframleiðendur) hafa átt erfiða síðustu viku því Samtök útgefenda upprunaábyrgða, AIB, sem fæstir vissu auðvitað að væru til, stöðvuðu allan útflutning á upprunavottorðum (aflátsbréfunum) vegna grænnar orku frá Íslandi. Ástæðan var tvítalningin. Íslensku fyrirtækjunum sem notast raunverulega við grænu orkuna hafði víst orðið það á að segjast framleiða vörur sínar með grænni orku, án þess að greiða sérstaklega fyrir að segja satt og rétt frá. En á meðan orkufyrirtækin og íslensk stjórnvöld vilja frekar færa kolabruna og kjarnorku í bækur Íslands í staðinn fyrir grænu orkuna sem hér er nóg af, þá þykir ekki boðlegt að segja satt, að mati kontóristanna hjá AIB.

Þá finna menn sig í bobba og benda helst á meintan skort á eftirliti með sölunni á réttinum til að segja ósatt, á meðan aðrir skulu borga hátt gjald fyrir að segja sannleikann.

Vandinn er ekki skortur á eftirliti – vandinn er þetta leikrit fáránleikans. Þar sem menn borga sig frá sannleikanum, blekkja neytendur og íslensk fyrirtæki sitja eftir með svartapétur. Hættum þessu bara og leyfum fyrirtækjunum sem völdu Ísland sem framleiðslustað að greina hátt og snjallt frá því að þeirra vara sé framleidd með íslenskri grænni orku. Þannig leggjum við okkar af mörkum í loftslagsmálum þessa heims.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 10. maí, 2023.