250 milljarðar í úrelta lausn

Ybbarnir á Twitter hrukku af hjörunum síðastliðinn sunnudag þegar Guðmundur Fertram, stofnandi Kerecis á Ísafirði, sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni það sem flestir vita og hugsa – að áform um svokallaða Borgarlínu væru fráleit. Lausnin væri gamaldags og kostnaðurinn út úr öllu korti.

Orðrétt sagði hann: „Svo er verið að setja 250 milljarða í borgarlínu sem er bara gömul tækni.“ Þetta kom fram í samhengi við ófullnægjandi samgöngur á Vestfjörðum og þau miklu verðmæti sem verða nú til á Vestfjörðum vegna fyrirtækja eins og Kerecis, fiskeldisins og sjávarútvegsins.

Þegar horft er til þess að reikningurinn fyrir svokallaðan nýja Landspítala er nú áætlaður 210 milljarðar þegar upphafleg áætlun gerði ráð fyrir 70 milljörðum, þá yrði vel sloppið ef borgarlínan kostaði á endanum „bara“ 250 milljarða.

En aftur að ybbunum. Gísli Marteinn mætti í bergmálshellinn sinn á Twitter og var fljótur að fordæma orð Guðmundar þar sem þau rímuðu ekki við skoðanir ybbanna: „Leiðinlegt að þessi kall skuli vera svona illa að sér um samgöngumál og borgarskipulag og samt að tjá sig um þau.“ Gísla þykir auðvitað erfitt að aðrir en hann og starfsmenn borgarlínukirkjunnar séu að tjá sig um þessi mál. Fólk sem kannski hefur raunverulega þekkingu á málunum. Jón Kaldal lét sitt ekki eftir liggja og sagði Guðmund vera „úti að aka í málefnum almenningssamgangna“. Íþróttafréttamaður nokkur úr Efstaleiti gat ekki setið á sér og sagði að þetta dæmi „sanni að færni á einu sviði segi ekkert um færni á öðru“. Jæja, þar kom það.

Allir þessir sjálfskipuðu sérfræðingar í samgöngumálum voru sem sagt með það á hreinu að þessi Guðmundur Fertram, „þessi kall“, eins og Gísli Marteinn orðaði það, vissi ekki neitt og skildi ekki neitt.

Hvað undirritaðan varðar, þá hef ég meiri trú á því að maður sem hefur komið einhverju í verk í lífinu, ekki bara það, heldur fundið upp stórkostlega lækningatækni sem mun umbylta lífi fólks um alla ævi – sé betur að sér um líklega tækniþróun til lengri tíma en borgarlínuhjörðin sem hefur það helst að atvinnu að níða skóinn af öðru fólki og koma upp um eigin fávisku, ítrekað.

Hversu langt út í fenið ætla menn sér að fara með borgarlínuna áður en svo mikið sem rekstraráætlun verður birt? Hversu lengi verða íslenskir skattgreiðendur látnir sturta peningum í gagnslausa samgöngutækni sem engu mun breyta hvað varðar samgönguvanda höfuðborgarsvæðisins? Það er ekki boðlegt að menn horfist ekki í augu við orðinn hlut, líti á undirbúninginn sem fórnarkostnað og breyti um stefnu. Svo eru það Vestfirðirnir – þar er þörfin brýn í samgöngumálum og uppsöfnuð samgönguskuld til áratuga. En látum ekki Gísla Martein eða aðra ybba hjóla okkur lóðbeint út í fenið í samgöngumálum.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 15. júlí, 2023.