Margt kemur þá vitaskuld upp í hugann, mismerkilegt, en mig langar rétt að tæpa á stóru myndinni – hvað blasir við íslenskri þjóð, hvað er ofarlega í huga margra – jú ríkisstjórnarsamstarfið og áhrif þess fyrir okkur öll.
Það er nefnilega ekkert grín að sitja undir ríkisstjórn sem stýrir landinu þannig að sífellt þrengir að atvinnulífinu, umbylta á góðum og gildum kerfum, kæfa vaxandi atvinnugreinar, slökkva ljósin sökum orkuskorts og engin áform í augsýn um að virkja. Algert stjórnleysi í útlendingamálum og landamærin nánast opin hverjum sem hugnast að bera hér að garði, óháð því hvað við getum hjálpað mörgum svo vel sé og hverjir eigi raunverulega rétt á vernd. Heilbrigðiskerfið þróast jafnt og þétt til verri vegar og er svo þungt í vöfum að varla hefur sést til heilbrigðisráðherrans, svo týndur er hann. Sumir hafa svo gert því skóna að Greta Thurnberg sé í raun umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands og báknið bara vex og vex.
En af hverju er ég svona neikvæður – á maður ekki að vera glaðhlakkalegur svona í aðdraganda jóla? Jú, en það skiptir samt máli að láta ekki glepjast. Láta ekki enn annað atvikið draga athyglina frá því sem mest er um vert – hvort sem það kemur til af Covid-19, enn einu eldgosinu eða hvað það heitir næst.
Ræðum stjórnmálin í jólaboðunum. Finnst okkur í lagi að sitja með hendur í skauti og sigla sofandi að feigðarósi í 638 daga til viðbótar? Við erum búin með rúm sex ár af þessu, nú eru rauð ljós farin að blikka á öllum vígstöðvum og kominn tími til að grípa í taumana. Það þarf að stýra þessu skipi í örugga höfn fyrir land og þjóð.
Síðasti mögulegi laugardagur fyrir kosningar innan kjörtímabilsins er 20. september 2025. Þangað til eru 638 dagar. Þeir gætu orðið langir. Ekki stendur til að kjósa að vori eins og mörgum þætti eðlilegt, formaður Sjálfstæðisflokksins sagði hér um árið efnislega að engin ástæða væri til að gefa frá sér völdin sem menn hefðu barist fyrir, fyrr en lög krefðu.
Ríkisstjórnin mun sitja þangað til henni er ýtt út, í kosningum. Flokkarnir sem hana mynda vita vel hver staða þeirra er hjá þjóðinni, það þarf ekki að líta lengra en til síðustu kannana sem birtar hafa verið.
Það þarf að tryggja orkuöryggi, verðmætasköpun, útflutningsvöxt, lága skatta, meira frelsi og tækifæri fyrir Íslendinga. Það þarf að horfast í augu við raunveruleikann. Það munar um Miðflokkinn í þeim efnum.
Ég óska landsmönnum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári – vonandi öll laus undan viðjum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is