Á­lit annara og al­manna­rómur auk í­myndar

Á­lit annara og al­manna­rómur auk í­myndar

Sigurður Páll Jónsson skrifar 
 
Ímynd Íslands útávið, er einhver eltingarleikur og markaðssetning sem undanfarin ár hefur leitt til þess að minnimáttarkennd þjóðarinnar hefur aukist. Saga Íslands í rúm þúsund ár er saga baráttu uppá líf og dauða við náttúruöflin og að eiga til hnífs og skeiðar, draga björg í bú. Þessi eyja sem ég er gríðarlega stoltur af að hafa fæðst og alist upp á en hef samt auknar áhyggjur vegna ímyndunarveiki nútímans. Ísland er magnað verk skaparans umlukin sjó sem býr yfir auðlindum sem hafa lengi vel verið grunnurinn að uppbyggingu velferðar hér á fróni. Það hefur opinberast síðustu rúm hundrað ár með tækniframförum í skipakostum og veiðarfærum. Hið umtalaða fiskveiðistjórnunar kerfi okkar í dag er umdeilt en þó ekki verra en það að það getur borgað auðlindargjald (veiðigjald) eitt örfárra fiskveiðiþjóða.

Orkuauðlindir okkar Íslendinga eru mikið fjöregg, sem mitt í allri ,,ímyndarveikinni“ stjórnvöld virðast vera ákveðin í að missa fullveldi yfir til ESB þjóða. Þegar orkupakka 3 var troðið uppá okkur árið 2019 reyndum við í Miðflokknum að opna augu þings og þjóðar um að samþykkja hann ekki. Í einni af ræðum sem ég flutti þetta vor var mér á orði ,, Við Íslendingar námum ekki hér land til að ganga í ESB nokkrum árum síðar“. Í EES samningnum á sínum tíma var hvergi minnst á orkumál! Það byrjaði með orkupakka 1 og 2 um síðustu aldarmót og svo orkupakka 3. Orkupakki 4 og 5 bíða á kantinum með enn frekara fullveldisframsali okkar Íslendinga til ESB.

Ferðamannaiðnaðurinn er í gríðarlegum vexti eða um 2,5 miljónir manna á síðasta ári og gjaldeyristekjurnar komnar upp fyrir gjaldeyristekjur sjávarútvegsins það ár. Markaðsuppbygging leikur stórt hlutverk í þessum bransa og þar spilar „ímyndin“ inní. En sú vinna þarf að mínu áliti að vera gerð með bakið beint

Uppbygging samgangna er á algjörum brauðfótum og ber alls ekki uppi þá miklu þungaflutninga sem á þjóðvegum landsins dynja eða þá fjölgun ferðamanna sem um vegina aka. Metnaðarleysi ráðherra málaflokksins sést best á því að framkvæmdum er ýtt frammí tímann, yfir á ráðherra framtíðarinnar, þegar núverandi ráðherra verður í öðrum gegningum.

Landbúnaður á undir högg að sækja og svo hefur verið um langt skeið. Þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn segja á tyllidögum að landbúnaðinn verði að tryggja. Svo er ekkert gert. Tveir af ríkisstjórnaflokkunum yfir 100 ára gamlir og telja sig málsvara bænda, samt er staðan þessi. Á síðasta kjörtímabili lagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og þingmenn Miðflokksins fram metnaðarfulla þingsályktunartillögu um stór eflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar í 24 liðum. Innlend matvælaframleiðsla er ein af grunnforsendum þess að við byggjum sjálfbært og sjálfbært samfélag til framtíðar. Varla nokkur skynsamur maður heldur öðru fram. Framtíð landbúnaðar veltur á ýmsu, má þar nefna á skilningi stjórnmálamanna, en umfram allt getu þjóðarinnar til að skoða heildarmyndina. Öllum ætti að vera ljóst að víða liggja vannýtt tækifæri í landbúnaði á Íslandi.

Höfundur er varaþingmaður fyrir Miðflokkinn.