Afturförin mikla framundan

Fæst af því sem við neyðumst til að innleiða frá Evrópusambandinu í gegnum EES er endilega gott þó sumir séu kostir þessa samstarfs. Nú hins vegar blasir við íslenskri þjóð mjög alvarlegt mál sem hefur gríðarleg áhrif á íslenskan efnahag og þar með lífsgæði þjóðarinnar til langs tíma. Evrópusambandið hefur ákveðið að stórauka skattlagningu á flug þannig að styttri leiðir verði flugfélögunum mun dýrari og leggist þannig af á endanum. Það sé betra fyrir umhverfið, segja þeir þarna í Evrópu.

„Fit for 55“ sem hljómar eins og æfingaáætlun einhvers í miðlífskrísu er í raun áðurnefnt skattlagningarplan Evrópusambandsins og leggst á um næstu áramót.

Fyrir Ísland þýðir þetta fullkomlega breytta sviðsmynd hvað tengingar við útlönd varðar því erlendu flugfélögin hætta einfaldlega að millilenda á Íslandi á leið sinni til og frá Evrópu eða Ameríku. Það verður bara of dýrt. Flugvél sem ætlar að fljúga yfir Atlantshafið með millilendingu á Íslandi fær á sig heiðgræna og háa skatta á meðan flugvélin sem flýgur beint yfir hafið beina leið á ameríska eða evrópska flugvöllinn sleppur betur. Áhrifin á Icelandair og PLAY verða óbætanleg. Ísland sem tengistöð verður liðin tíð.

Ísland þrífst á góðum samgöngum við umheiminn. Ferðamannaiðnaðurinn stendur og fellur með öflugum flugsamgöngum á góðu verði. Rekstrarskilyrði fyrirtækja munu einnig versna verulega ef af verður, útflutningur á ferskum fiski færist áratugi aftur í tímann og ferðalög almennings verða verulegum takmörkunum háð og stórkostlega miklu dýrari. Ísland færist einfaldlega aftur í tímann í öllum skilningi ef Evrópusambandinu tekst ætlunarverk sitt.

Það má vera að fólkið sem býr á meginlandi Evrópu telji fínt að troða öllum í járnbrautarlestina í staðinn fyrir flugvélina. En Ísland er ekki undir sömu lögmál selt, það gengur engin járnbrautarlest yfir hafið.

Þingmenn Miðflokksins munu berjast gegn þessu máli. Afleiðingarnar eru það afdrifaríkar að mann rekur hreinlega í rogastans að fylgjast með ráðherrum ríkisstjórnarinnar loka augunum gagnvart þessu. Ætli þeim sé ekki meira í mun að vera áfram boðið í kokteilana – enda þurfa þeir ekki að kaupa miðann út þegar verðið hefur margfaldast, þeir hafa skattgreiðendur til þess.

Ráðherrarnir segjast vera búnir að halda hundrað fundi um málið. Samt hafa þeir engum árangri náð fyrir íslenska þjóð og hennar hagsmuni. Utanríkisráðherrann hefur meira að segja sagst aðspurð ekki vilja vera „stikkfrí frá regluverkinu“.

En eitt er ljóst að þingmenn Miðflokksins munu leggja allt í sölurnar til að koma í veg fyrir þessa afturför íslensks samfélags. Sérstaklega í ljósi þess að þessi aðgerð bjargar engu loftslagi, að halda það er vandræðalegt í besta falli.

Það munar um Miðflokkinn.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 13. mars, 2023.