Alþingi Íslands logar, málþóf um útlendingafrumvarp

Alþingismennirnir Arndís Anna og Þórhildur Sunna frá Pírötum, Helga Vala Helgadóttir og Logi Einarsson Samfylkingu, sem og Sigmar Guðmundsson Viðreisn, svo einhverjir séu nefndir, berjast af offorsi gegn hælisleitendafrumvarpi Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra og fyrir aukinni móttöku hælisleitenda með alþjóðlega vernd þeim til handa. Ég hef sjaldan eða aldrei heyrt áðurnefnda þingmenn tala fyrir útrýmingu fátæktar hér á landi. Ekki heyrt þá tala fyrir bættum kjörum öryrkja, einstæðra mæðra og ellilífeyrisþega. Hvað þá langveikum börnum og foreldrum þeirra. Aldrei heyrt þá tala um fjölgun hjúkrunarrýma. Nei, þeir eru of uppteknir við að setja íslenskt velferðarkerfi á hliðina. Nokkrir áðurnefndra þingmanna hafa á undangengnum árum hreinlega haft lifibrauð sitt af fjölgun hælisleitenda og málsvörnum kringum málaflokkinn. Arndís Anna K. Gunnarsdóttir var einn af lögfræðingum Rauða krossins eða fram til ársins 2020. Helga Vala er eigandi lögfræðistofunnar Valva lögmenn. Hún er reyndar sögð í leyfi frá störfum þar. Í verkefnalýsingu lögmannsstofunnar kemur fram að stofan taki að sér að gæta réttinda erlendra borgara.

Eru þessir þingmenn hæfir til að fjalla um málefni flóttamanna á Alþingi Íslendinga á hlutlausan hátt? Svar mitt er einfaldlega nei!

Við þurfum að hjálpa þeim sem við virkilega ráðum við að hjálpa og þar hljóta Úkraínumenn að vera í algerum forgangi. Ekki veit ég hver átti þá hugmynd í upphafi að veita íbúum Venesúela alþjóðlega vernd hér á landi. Mér hefur reyndar gengið illa að fá upplýsingar um það. Líklega samt ekki Alþingi, heldur mögulega einhver nefnd á vegum Útlendingastofnunar. Ég klóra mér reyndar í höfðinu yfir því að einhverjum hér á landi dytti í hug að við gætum orðið skjól fyrir þúsundir eða tugþúsundir íbúa Venesúela sem flýja efnahagsþrengingar og spillingu. Alveg ljóst að þolmörkum er löngu náð þar.

Hvernig hefur svo tekist til við móttöku flóttamanna hjá þeim sem hafa tekið á móti hvað flestum hælisleitendum í Evrópu? Tökum Þýskaland sem dæmi. Wall Street Journal gerði nýverið ítarlega rannsókn á því hvernig til hefur tekist hjá Þýskalandi við móttöku flóttamanna. Rannsóknin miðaði að því að finna áhrifin á samfélagið þar sem Þýskaland hefur tekið hlutfallslega á móti flestum flóttamönnum í heiminum. Markmið Þjóðverja var að virkja flóttafólk á vinnumarkað á sem skemmstum tíma þar sem skortur á vinnuafli var áþreifanlegur, ekki óáþekk staða og hér á landi. Í stuttu máli þá er niðurstaða Wall Street Journal sú að þetta ætlunarverk hafi algerlega misfarist. Það sem hefur hins vegar raungerst er að álag á heilbrigðis- og félagslega kerfið hefur aukist til muna vegna lélegrar atvinnuþátttöku flóttamanna og þá hefur glæpatíðni stóraukist.

Persónulega þekki ég nokkuð vel til mála í Belgíu og Þýskalandi eftir að hafa búið þar um nokkurra ára skeið og einnig fylgst vel með gangi mála í samfélagi þessara landa eftir að ég flutti heim til Íslands. Þegar um er að ræða menningarlegan og trúarlegan mun, þá verður einfaldlega ekki til nein fjölmenning sem Píratar nota gjarnan í rökstuðningi sínum með mótttöku flóttamanna. Þvert á móti; það verða til ný samfélög með aldagömul menningarleg gildi sem fara sérstaklega gegn mikilvægum gildum okkar, t.d. jafnrétti kynjanna. Þessir tilteknu innflytjendur hafa svo sest að í bæjareða borgarhlutum Þýskalands þar sem þeir skapa sín eigin samfélög með sínum eigin reglum með afskaplega litla tengingu við þá þjóð og samfélag sem fyrir er.

Miklar óeirðir og uppþot áttu sér t.a.m. stað á gamlárskvöld og aðfaranótt nýárs 2022/2023 í Þýskalandi. Gerðar voru árásir á lögreglumenn og sjúkraflutningafólk og þúsundir slösuðust. Ástandið tengdist þeim bæjar- og borgarhverfum þar sem margir innflytjendur eru til húsa. Í viðtölum við löggæslufólk sem var við störf þessa nótt kom fram að virðingin fyrir valdstjórninni er engin og það var enginn ótti til staðar hvað varðar að taka afleiðingum misgjörða sinna.

Mig langar að nefna eitt dæmi til viðbótar vegna þess algera stjórnleysis sem ríkir í málaflokknum.

Ungur drengur frá Fílabeinsströndinni, hælisleitandi, fékk að stunda æfingar hjá fótboltaliði sem ég tengist. Einstaklega geðþekkur og ljúfur piltur. Eftir einhverja 12-13 mánuði í kerfinu fékk hann synjun um landvist og var fluttur af landi brott. Um 4-6 mánuðum síðar hefur hann samband við mig og segir að hann sé mættur aftur til Íslands. Ég varð nokkuð forviða og spurði hvað til kæmi. Þá hafði honum tekist að safna fé fyrir flugfarseðli, mætti til Íslands skilríkjalaus, en þar með kominn aftur í umsókn um alþjóðlega vernd og það ferli sem því fylgir. Það er ekkert virkt eftirlit með hælisleitendum og því greið leið inn í landið, aftur og aftur að því er virðist. Hælisleitendur sem er úthýst mæta einfaldlega aftur með nýkeypt skilríki eða engin. Þegar ég spurði hann svo á hverju hann ætlaði að lifa var svarið stutt og laggott: „On the government of course!“ (Á kerfinu.)

Einu þingmennirnir sem láta í ljós skoðanir sínar á þessu nauðsynlega frumvarpi dómsmálaráðherra eru Jón Gunnarsson, ráðherrann sjálfur, og svo þingmenn Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólafsson, sem telja reyndar frumvarpið grútmáttlaust. Þeir mega síðan taka við hatursorðræðu frá títtnefndum þingmönnum og fá í kjölfarið yfir sig mannvonsku og hægriöfgaviðurnefnin.

Í dag er stór hluti almennings á Íslandi uggandi um framtíð þessarar eyþjóðar með íbúatal í kringum 380.000 og sína einstöku menningu og tungumál. En margir landsmenn treysta sér ekki til að tjá sig um málefni innflytjenda vegna þeirrar hatursorðræðu sem kynni að koma í kjölfarið.

Á meðan standa Píratar, Samfylking og Viðreisn dyggan vörð um þetta kerfi sem er ekkert kerfi. Það má færa fyrir því rök að þessir þingmenn, með málflutningi sínum, nýti sér slæma stöðu flóttafólks og hælisleitenda til þess að mikla sig sjálfa og ná athygli. Eigum við ekki hugtak yfir slíka stjórnmálamenn?

Lárus Guðmundsson, oddviti Miðflokksins í Garðabæ.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. febrúar, 2023.