Atlaga ráðherra flugmála að flugöryggi

Allt frá því á síðustu öld hafa verið uppi hugmyndir ýmissa hagsmunaaðila í Reykjavík um að leggja skuli af flugvöllinn í Vatnsmýrinni og nota svæðið undir íbúðabyggingar til að þétta byggð. Allan þann tíma hefur verið komið í veg fyrir eðlilega uppbyggingu og viðhald á vellinum líkt og flugstarfsemin og þjónusta við flugfarþega þarf á að halda.

Meirihluti borgarstjórnar hefur mörg undanfarin ár, undir stjórn Samfylkingarinnar, gert allt til þess að ganga á flugvöllinn og hefur orðið nokkuð ágengt í þeim efnum. Fyrir fáeinum árum var þannig ein flugbraut aflögð til þess að hægt væri að byggja nýtt íbúðahverfi við enda hennar, en um var að ræða þá flugbraut sem mikilvægust var í erfiðum veðrum og þá sérstaklega fyrir sjúkraflug alls staðar af landinu. Vitað er að sú braut hefur bjargað mannslífum og því með öllu óskiljanlegt að lokun hennar hafi verið neydd upp á þjóðina, en með blekkingum var aðförin réttlætt líkt og áður hefur komið fram.

Nú er svo komið að næsta skref í aðför að þessari miðstöð innanlandsflugs er í fullum gangi. Vitað var hvernig meirihluti borgarstjórnar vildi ganga milli bols og höfuðs á vellinum, en nýjasta útspilið kom úr óvæntri átt. Formaður Framsóknarflokksins, sem einnig gegnir embætti innviðaráðherra, hefur tekið þá ákvörðun í samstarfi við borgarstjóra að hefja skuli jarðvegsvinnu vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar svonefnds „Nýja Skerjafjarðar“ sem er nýtt íbúðahverfi sem borgin hefur skipulagt.

Það er vægt til orða tekið að það hafi komið mörgum á óvart að innviðaráðherra skuli með beinum hætti ganga gegn eigin samningum og orðum um að ekki skuli þrengja að Reykjavíkurflugvelli fyrr en annar sambærilegur eða betri völlur væri tilbúinn til notkunar. Þá er vert að minnast á að ekki er svo langt síðan flokkur ráðherrans bauð fram í sveitarstjórnarkosningum undir nafninu „Framsókn og flugvallarvinir“. Hver þarf óvini ef hann á slíka vini? Þá hlaut flokkur ráðherrans góða kosningu í Reykjavík í síðustu sveitarstjórnarkosningum út á það að boða breytingar. Breytingarnar hafa ekki sést ennþá, nema ef vera skyldi það að með stuðningi flokksins og ráðherrans virðist sem meirihluta borgarstjórnar ætli á endanum að takast að þrengja svo að flugstarfseminni í Vatnsmýri að völlurinn verði ónothæfur og notkun hans því sjálfhætt.

Sveitarstjórnarfulltrúar víða um land hafa látið í ljósi óánægju sína með ákvörðun innviðaráðherra, enda ekki nema von þar sem flugvöllurinn í höfuðborginni snertir hagsmuni allra Íslendinga. Það er óviðunandi að flugvöllur allra landsmanna skuli notaður sem pólitísk skiptimynt til þess að borgarfulltrúi Framsóknarflokksins fái að tylla sér í stól borgarstjóra í tvö ár. Það er óhugsandi að slíkt gæti gerst í nokkru öðru landi.

Nú hefur innviðaráðherra haldið því fram að hægt sé að framkvæma mótvægisaðgerðir þannig að flugi stafi ekki hætta af nýja íbúðahverfinu sem hann ætlar að reisa. Þó stendur svart á hvítu í skýrslu starfshóps innviðaráðuneytisins frá því í apríl síðastliðnum að:
„Byggð í Nýja Skerjafirði samkvæmt fyrirliggjandi skipulagi þrengir að starfsemi flugvallarins frá því sem nú er, breytingar verða á vindafari á flugvellinum og í næsta nágrenni hans og nothæfi hans skerðist.“

Þannig heldur blekkingarleikurinn áfram og nú hjá formanni Framsóknarflokksins, flokksins sem eitt sinn gaf sig út fyrir að vinna að hag íbúa dreifðra byggða á Íslandi, en það er af sem áður var.

Á sama tíma og ljóst er að fyrirhugað íbúðahverfi muni hafa slæm áhrif á flug um Reykjavíkurflugvöll virðist sem að vegna tengsla sveitarstjórnarfulltrúa víða um land við innviðaráðherra og flokk hans náist ekki eðlileg samstaða innan sumra sveitarstjórna um fordæmingu ákvörðunar formanns Framsóknarflokksins um að þrengja að flugvellinum. Þannig ráði ekki hagsmunir íbúa sveitarfélaganna út um land heldur pólitísk refskák sem flokkseigendafélag Framsóknarflokksins hefur dæmt verðugri. Spyrja má hvort kjörnir sveitarstjórnarfulltrúar sem viðhafa slík vinnubrögð séu að svíkja kjósendur sína eða fórna þeim á altari hagsmuna Framsóknarflokksins í Reykjavík.

Undirritaður mótmælir harðlega atlögu ráðherra og meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur að almannaheill með fyrirhugaðri uppbyggingu íbúðahverfis sem skerða mun flugöryggi við flugvöllinn í Vatnsmýri.

Högni Elfar Gylfason, varaþingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. júlí, 2023.