Er hægt að spara 30 milljarða til ársins 2022?

Er hægt að spara 30 milljarða til ársins 2022?

Hinn 26. mars sl. beindi ég eft­ir­far­andi spurn­ingu til fjár­málaráðherra:

„Hversu marg­ir starfs­menn ráðuneyta og stofn­ana þeirra láta af störf­um fyr­ir ald­urs sak­ir á ár­un­um 2020, 2021 og 2022 miðað við gild­andi regl­ur um starfs­lok vegna ald­urs? Svar óskast sund­urliðað eft­ir árum.“

Svar kom loks 17. ág­úst, rúm­um fjór­um mánuðum síðar. Í svar­inu kem­ur m.a. fram að til árs­ins 2022 munu tæp­lega 2.000 rík­is­starfs­menn ná líf­eyris­tökualdri en fram kem­ur í svar­inu að al­geng­ast sé að þá hefji fólk líf­eyris­töku eða við 67 ára ald­ur. Af þess­um hópi munu 726 manns ná 70 ára aldri og láta af störf­um. Miðað við svarið er ólík­legt að marg­ir myndu óska þess að starfa leng­ur en það get­ur verið hag­kvæmt að nýta starfs­krafta op­in­berra starfs­manna fram yfir sjö­tugt. Ekki má held­ur gleyma því að það get­ur verið kost­ur að liðka frek­ar fyr­ir flutn­ingi starfs­manna milli starfa inn­an stjórn­sýsl­unn­ar.

Á næstu tveim­ur árum munu því tæp­lega 2.000 rík­is­starfs­menn ná sex­tíu og sjö ára aldri og í því fel­ast tæki­færi til hagræðing­ar.

Ef við horf­um ein­göngu til þess hóps sem nær 70 árum á þess­um tíma, 726 manns, og gef­um okk­ur að hvert starf þeirra kosti fimmtán millj­ón­ir króna (sum­ir segja að það sé nærri tutt­ugu millj­ón­um) er kostnaður við þessi 726 störf tæp­ir 11 millj­arðar króna á tíma­bil­inu.

Nú geri ég mér grein fyr­ir því að vafa­samt er að full­yrða að hægt sé að sleppa því að ráða í stað allra þess­ara tvö þúsund ein­stak­linga en ef það væri hægt væri sparnaður rík­is­sjóðs um þrjá­tíu millj­arðar króna á tíma­bil­inu m.v. þess­ar for­send­ur.

Við höf­um kynnst því á síðustu mánuðum að við get­um verið fljót að læra á nýja tækni og laga okk­ur að breyttu um­hverfi. Tækn­in mun halda áfram að þró­ast og breyta störf­um og í því fel­ast ýmis tæki­færi til nýrra starfa, hagræðing­ar o.fl.

Þetta eru mikl­ir fjár­mun­ir og jafn­vel þótt ein­ung­is hluti þeirra spar­ist mun­ar um það. Fjár­málaráðherra ætti því að taka það til skoðunar hvar hægt er að fækka störf­um, út­vista verk­efn­um til einkaaðila, nýta tækni, sam­starf og sam­ein­ing­ar til að minnka báknið og spara í sam­eingin­leg­um sjóðum lands­manna.

Hér má finna slóð á fyr­ir­spurn­ina og svarið:

htt­ps://​www.alt­hingi.is/​altext/​150/​s/​1840.html

 

Höf­und­ur:  Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins í Suðvest­ur­kjör­dæm­i

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 8. september, 2020