Erna skrifar um "týndu samningana"

Þótt margir vilji íslenskum landbúnaði án efa vel eru fáir sem hafa jafn mikla þekkingu á umhverfi hans og Erna Bjarnadóttir hagfræðingur. Erna hefur undanfarið skrifað margar góðar greinar, m.a. um viðskiptasamninga og tollamál. Í nýjustu grein Ernu, sem finna má á Fésbókinni og Kjarnanum, fjallar hún um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkisviðskipti sem kallast „Áfram gakk“. Skýrslan er ágæt samantekt um þróun og stöðu utanríkisviðskipta.

Erna bendir á að ekki er fjallað mikið um tollvernd í skýrslunni, sem er rétt, en einnig finnst þeim sem þetta ritar að ræða hefði mátt meira um viðskiptaumhverfi með landbúnaðarvörur.

Í grein Ernu kemur svolítið merkilegt fram. Utanríkisráðherra virðist hafa sleppt því að nefna í skýrslunni þá fríverslunarsamninga um landbúnaðarvörur sem gerðir hafa verið samhliða fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna. Alls eru þetta um tuttugu samningar sem ekki er minnst á. Samningar þessir eru gerðir samhliða almennum fríverslunarsamningum og gilda jafnt um vörur sem framleiddar eru á Íslandi og annars staðar.

Erna bendir á að þrír samningar liggja til grundvallar fríverslun með búvörur milli ESB og Íslands: Fríverslunarsamningur frá 1972, samningur frá 2007 á grundvelli 19. gr. og bókunar 3 í EES-samningnum og loks samningur eða uppfærsla á samningnum frá 2007, sem tók gildi 2018. Í framhaldi af þessu skoðaði hún íslensku tollskrána og komst að því að ESB nýtur upp undir 85% tollfrelsis fyrir landbúnaðarvörur til manneldis (ætar vörur) en tollfrelsi skv. kjörum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar veitir um 50%.

Eðlilegt er því að gagnrýna að þessu hafi ekki verið gerð betri skil í skýrslunni.

Ég fagna því að óskað verði eftir endurskoðun á samningum um búvörur við ESB. Mistök hafa verið gerð í gegnum árin með því að samþykkja svo mikið tollfrelsi og nærtækara hefði verið að horfa á málin sömu augum og Norðmenn hafa gert til þessa. Nú mun umfang heildarviðskipta við ESB breytast eftir að Bretland er farið úr sambandinu auk þess sem staða greinarinnar er allt önnur en menn höfðu vænst. Það er hins vegar mikilvægt að þegar fjallað er um umhverfi einnar mikilvægustu atvinnugreinar landsins sé það gert út frá staðreyndum og samanburði sem á sér stoð í raunveruleikanum.

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA) virðist hins vegar oftar en ekki að bera saman epli og appelsínur, líkt og Erna hefur margoft bent á. Það er ekki þeim félagsskap til framdráttar að berjast þannig gegn heildarhagsmunum Íslendinga í skiptum fyrir stundargróða. Íslendingar sjá í gegnum meinta umhyggju FA fyrir neytendum. Allra hagur er að starfsumhverfi landbúnaðarins sé öruggt því einungis þannig er fæðuöryggi þjóðarinnar tryggt.

Höfundur:  Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Suðvesturkjördæmis og formaður þingflokks Miðflokksins

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 1. febrúar, 2021