Fjármálaráðherra snuprar sjálfan sig

Fjármálaráðherra snuprar sjálfan sig

Föstudagur, 1. september 2023
 
Fyr­ir réttri viku, degi fyr­ir flokks­ráðsfund Sjálf­stæðis­flokks­ins, kynnti formaður flokks­ins og fjár­málaráðherra aðhaldsaðgerðir stjórn­valda til að bregðast við ástandi í efna­hags­mál­um og hárri verðbólgu.
 

Í frétt á heimasíðu ráðuneyt­is­ins sagði að „Gert [væri] ráð fyr­ir 17 millj­arða ráðstöf­un­um á næsta ári til að hægja á vexti út­gjalda. Takið eft­ir: „hægja á vexti út­gjalda“, en ekki draga úr út­gjöld­um sem þessu nem­ur.

Bætt var í rík­is­út­gjöld á milli ára um 193 millj­arða við gerð fjár­laga fyr­ir yf­ir­stand­andi ár (að teknu til­liti til ein­skipt­is-Covid-út­gjalda). Því má velta fyr­ir sér hversu mik­ill metnaður felst í því að hægja á út­gjalda­vext­in­um á næsta ári um sem nem­ur inn­an við 10% af vexti árs­ins á und­an?

En það sem vakti sér­staka at­hygli mína við kynn­ingu ráðherr­ans var tal­an. 17 millj­arðar. Minn­ug­ur þess að sami fjár­málaráðherra sagði í lokaræðu sinni við aðra umræðu fjár­mála­áætl­un­ar fyr­ir árið 2024-2028, þá orðinn pirraður á gagn­rýni á út­gjalda­vöxt rík­is­sjóðs, að í sam­hengi við aðhalds­mark­mið í fjár­mála­áætl­un þá teldi hann „að upp­hafs­verðmiðinn ætti að vera 25 millj­arðar. Þeir sem koma með til­lög­ur um að gera eitt­hvað minna en 25 millj­arða eru ekki að leggja neitt markvert til í bar­átt­unni gegn verðbólgu.“

Þetta sagði fjár­málaráðherra 9. júní sl. Á loka­degi vorþings. Hvað breytt­ist í millitíðinni verður ráðherr­ann sjálf­ur að út­skýra en fyr­ir okk­ur sem horf­um á rík­is­fjár­mál­in úr ör­litl­um fjarska bend­ir flest til að þörf­in fyr­ir aðhald hafi auk­ist frek­ar en minnkað í gegn­um sum­ar­mánuðina.

Að þessu virtu er von að spurt sé hvort þess­ar aðhaldsaðgerðir hefðu getað borið með sér minni metnað en þarna kem­ur fram? Marg­ar þeirra aðgerða sem til­kynnt­ar voru eru end­ur­tekið efni og aðrar eru fugl­ar í skógi.

Skila­boð fjár­málaráðherra, í aðdrag­anda flokks­ráðsfund­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins, um að 17 millj­arða aðhald væri fram­lag rík­is­stjórn­ar­inn­ar í bar­átt­unni við verðbólg­una er kúnstugt í ljósi orða hans í sum­ar­byrj­un.

Stein­inn tók svo úr þegar fjár­málaráðherra réðst á Seðlabank­ann og þá sér­stak­lega seðlabanka­stjóra með þeim orðum að það væri ekki hlut­verk rík­is­fjár­mál­anna að eiga við verðbólg­una held­ur Seðlabank­ans. Þessi nýja hag­fræðikenn­ing skil­ur menn um all­an bæ eft­ir í forundr­an.

Hætt er við að aðilar vinnu­markaðar­ins telji sig stikk­frí í kjöl­far þessa og rík­is­stjórn­in al­veg ör­ugg­lega. Mann hrein­lega óar við því sem í hönd fer, þegar ein ósam­stæðasta rík­is­stjórn síðari tíma eyk­ur rík­is­út­gjöld enn frek­ar og tel­ur sig hafa gert gott með því að auka rík­is­út­gjöld­in 17 millj­örðum minna en í stefndi, í kjöl­far 193 millj­arða út­gjalda­aukn­ing­ar síðustu fjár­laga.

Seðlabank­inn hef­ur senni­lega aldrei staðið jafneinn í slagn­um við verðbólg­una og núna.

Höf­und­ur er þing­flokks­formaður Miðflokks­ins. bergt­horola@alt­hingi.is