Síðasta vika byrjaði með hvelli á stjórnarheimilinu, virtist margt í gangi fram eftir vikunni og allt fram á helgi en þá tók fjallið jóðsótt og fæddist lítil mús.
Í öllum látunum missti innviðaráðherra það út úr sér að ríkisstjórninni hefði gengið vel í verkefnum sínum. Vakti þetta stöðumat ráðherrans kátínu víða.
Margir spyrja sig nú:
Hefur gengið vel þegar við blasir Íslandsmet í útgjaldavexti ríkissjóðs, án þess að þess sjáist merki að árangur hafi náðst í nokkrum málaflokki, nema þá helst hinu alltumlykjandi verkefni að þenja út ríkisbáknið?
Hefur gengið vel þegar við horfum á lengri biðlista en við höfum áður séð í heilbrigðiskerfinu?
Hefur gengið vel þegar matvælaráðherra stöðvar heila atvinnugrein, með innan við sólarhrings fyrirvara, á veikum grundvelli?
Hefur gengið vel þegar sami ráðherra kemur fram með áform um heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða, þvert á það sem mælt er fyrir um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?
Hefur gengið vel þegar slagurinn við verðbólguna er fyrst og fremst tekinn með því að hækka gjöld hins opinbera í stað þess að draga úr ríkisútgjöldum?
Hefur gengið vel að styðja við peningastefnu Seðlabankans á meðan ríkisútgjöldin eru stjórnlaus?
Hefur gengið vel þegar utanríkisráðherra lokar sendiráði Íslands í Rússlandi án forsvaranlegrar umræðu? Enn hefur engin þjóð fylgt fordæmi okkar Íslendinga.
Hefur gengið vel þegar félagsmálaráðherra vinnur beinlínis gegn áherslum dómsmálaráðherra í sömu ríkisstjórn og núllar út áhrif litla útlendingafrumvarpsins?
Hefur gengið vel þegar staðan á húsnæðismarkaði er eins og hún er? Þegar fólk er raunverulega farið að velta því fyrir sér hvort það sé hægt að búa í glærusýningunum.
Hefur gengið vel þegar fjölmiðlar heltast úr lestinni hver af öðrum á meðan viðbrögð stjórnvalda við erfiðu rekstrarumhverfi þeirra og yfirburðastöðu Ríkisútvarpsins eru krampakenndar peningaúthlutanir einu sinni á ári, svona til að bjarga sér úr skömm.
Hefur gengið vel þegar neyðarkall berst frá forstjóra Landsvirkjunar, þar sem flaggað er alvarlegum orkuskorti ef ekki verður brugðist við og það hratt.
Hefur gengið vel þegar umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi eru úr öllu samhengi við það sem gerist í nágrannalöndunum og stöðunni verður varla lýst öðruvísi en stjórnlausri?
Hefur gengið vel þegar bændur senda raunverulegt neyðaróp vegna stöðu sinnar?
Trúir því einhver annar en innviðaráðherra að það hafi gengið vel hjá þessari stjórn? Ríkisstjórn sem nú ætlar sér að skakklappast áfram í tvö ár til?
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is