Hefur gengið vel??

Hefur gengið vel?

Miðvikudagur, 18. október 2023
Bergþór Ólason
 

Síðasta vika byrjaði með hvelli á stjórn­ar­heim­il­inu, virt­ist margt í gangi fram eft­ir vik­unni og allt fram á helgi en þá tók fjallið jóðsótt og fædd­ist lít­il mús.

Í öll­um lát­un­um missti innviðaráðherra það út úr sér að rík­is­stjórn­inni hefði gengið vel í verk­efn­um sín­um. Vakti þetta stöðumat ráðherr­ans kátínu víða.

Marg­ir spyrja sig nú:

Hef­ur gengið vel þegar við blas­ir Íslands­met í út­gjalda­vexti rík­is­sjóðs, án þess að þess sjá­ist merki að ár­ang­ur hafi náðst í nokkr­um mála­flokki, nema þá helst hinu alltumlykj­andi verk­efni að þenja út rík­is­báknið?

Hef­ur gengið vel þegar við horf­um á lengri biðlista en við höf­um áður séð í heil­brigðis­kerf­inu?

Hef­ur gengið vel þegar mat­vælaráðherra stöðvar heila at­vinnu­grein, með inn­an við sól­ar­hrings fyr­ir­vara, á veik­um grund­velli?

Hef­ur gengið vel þegar sami ráðherra kem­ur fram með áform um heild­ar­end­ur­skoðun laga um stjórn fisk­veiða, þvert á það sem mælt er fyr­ir um í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar?

Hef­ur gengið vel þegar slag­ur­inn við verðbólg­una er fyrst og fremst tek­inn með því að hækka gjöld hins op­in­bera í stað þess að draga úr rík­is­út­gjöld­um?

Hef­ur gengið vel að styðja við pen­inga­stefnu Seðlabank­ans á meðan rík­is­út­gjöld­in eru stjórn­laus?

Hef­ur gengið vel þegar ut­an­rík­is­ráðherra lok­ar sendi­ráði Íslands í Rússlandi án for­svar­an­legr­ar umræðu? Enn hef­ur eng­in þjóð fylgt for­dæmi okk­ar Íslend­inga.

Hef­ur gengið vel þegar fé­lags­málaráðherra vinn­ur bein­lín­is gegn áhersl­um dóms­málaráðherra í sömu rík­is­stjórn og núll­ar út áhrif litla út­lend­inga­frum­varps­ins?

Hef­ur gengið vel þegar staðan á hús­næðismarkaði er eins og hún er? Þegar fólk er raun­veru­lega farið að velta því fyr­ir sér hvort það sé hægt að búa í glæru­sýn­ing­un­um.

Hef­ur gengið vel þegar fjöl­miðlar helt­ast úr lest­inni hver af öðrum á meðan viðbrögð stjórn­valda við erfiðu rekstr­ar­um­hverfi þeirra og yf­ir­burðastöðu Rík­is­út­varps­ins eru krampa­kennd­ar pen­inga­út­hlut­an­ir einu sinni á ári, svona til að bjarga sér úr skömm.

Hef­ur gengið vel þegar neyðarkall berst frá for­stjóra Lands­virkj­un­ar, þar sem flaggað er al­var­leg­um orku­skorti ef ekki verður brugðist við og það hratt.

Hef­ur gengið vel þegar um­sókn­ir um alþjóðlega vernd hér á landi eru úr öllu sam­hengi við það sem ger­ist í ná­granna­lönd­un­um og stöðunni verður varla lýst öðru­vísi en stjórn­lausri?

Hef­ur gengið vel þegar bænd­ur senda raun­veru­legt neyðaróp vegna stöðu sinn­ar?

Trú­ir því ein­hver ann­ar en innviðaráðherra að það hafi gengið vel hjá þess­ari stjórn? Rík­is­stjórn sem nú ætl­ar sér að skakklapp­ast áfram í tvö ár til?

Höf­und­ur er þing­flokks­formaður Miðflokks­ins. bergt­horola@alt­hingi.is