Læknum heilbrigðiskerfið

Síðustu daga og misseri hefur afhjúpast sá veruleiki sem stjórnvöld hafa neitað að horfast í augu við. Heilbrigðiskerfið er að sligast. Auðvitað má að miklu leyti rekja það til Covid-19-faraldursins. Margir reka upp stór augu og falla í þá gryfju að gerast yfirlýsingaglaðir þegar fréttist að LSH sé kominn á svokallað hættustig. Hvernig má það vera að þrátt fyrir ekki fleiri innlagnir vegna sjúkdómsins séum við á slíkum stað? Því miður ber ekki öllum gæfa til að skilja að það þarf ekki aðeins húspláss og tæki. Ekkert af þessu virkar nema til staðar sé fólk sem kann að beita búnaðinum. Heilbrigðiskerfið þolir ekki sumarleyfi, og alls ekki í óvissuástandi eins og nú ríkir. Það verður einfaldlega að tryggja að nægt starfsfólk sé til staðar árið um kring, líka á sumrin. Starfsfólk heilbrigðiskerfisins á rétt á orlofi eins og aðrir.

En þetta er vitaskuld ekki það eina. Langvarandi hirðuleysi um vinnuaðstæður og mönnun í framlínu heilbrigðiskerfisins er stóri vandinn. Fréttir hafa borist af því að reyndir læknar sem starfað hafa í framlínunni jafnvel í áratugi hafi nú sagt upp störfum. Ástæðan? Jú einmitt sinnuleysi. Ekki er hlustað á varnaðarorð þeirra. Ráð þeirra sem gefin eru af heilum hug eru beinlínis hundsuð. Gengið er fram hjá lögskipuðum fagráðum eins og sóttvarnaráði. Vinnubrögð eins og þessi samræmast ekki nútímaleiðtogafræðum. Þau eru hins vegar sprottin beint innan úr herbúðum ríkisstjórnarinnar, í þessu tilviki heilbrigðisráðuneytisins. Þess er skemmst að minnast að þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar, undirskriftalista og bænir lækna og fagfólks verður ekkert ágengt að vinda ofan af klúðri í breytingum á fyrirkomulagi skimunar fyrir leghálskrabbameini. Fólk vill vera virt svars, vera virt fyrir þekkingu sína, fólk sem af einlægni vinnur að mikilvægum verkefnum.

Í kvöldfréttum RÚV miðvikudaginn 4. ágúst sást forstjóri LSH nánast „grátbiðja“ starfsfólk að snúa til starfa úr sumarleyfum. Ástandið á bráðamóttöku LSH hefur eftir fréttum að dæma, sjaldan eða aldrei verið verra. Slík staða er óásættanleg! Nú er verið að rýma til innan LSH svo taka megi við fleiri alvarlega veikum Covid-sjúklingum. Jafnvel nauðsynlegum hjartaaðgerðum þarf að fresta. Fréttirnar segja hins vegar ekki frá því hvað verður um sjúklingana. Fara þeir heim til sín? Hver annast þá þar og er það ásættanlegt? Eiga aðstandendur að sinna umönnun sem ætti að vera á hendi sérfræðinga? Aðstandendur verða fyrir ýmiss konar kostnaði, fá þeir það bætt? Hvað gerist ef að verður hópslys um helgi? Ræður spítalinn við það ofan á það álag sem fyrir er? Nei, því það verður áfram þörf fyrir að sinna öðrum sem þurfa á læknishjálp að halda.

Það má vel vera að fulltrúar ríkisstjórnarinnar ætli nú að reyna hvert í kapp við annað að kveða niður gagnrýnisraddir, það geisar jú heimsfaraldur og hann á ekki að gera að pólitísku bitbeini og allra síst fyrir kosningar! En stjórnmál snúast um ákvarðanir, líka þær ákvarðanir sem ekki eru teknar eins og að forða hruni heilbrigðiskerfisins. Staða heilbrigðiskerfisins er því sannarlega kosningamál.

Því segi ég: Það er komið að ögurstundu.

 

Höfundur: 

Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur, sem skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

kvika04@gmail.com

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 11. ágúst, 2021